144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

beiðni um komu ráðherra á fund atvinnuveganefndar.

[15:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sé á harðahlaupum undan þingnefndinni og vilji ekki koma þar til umræðna enda virðist í þessu bleikjueldismáli vera fiskur undir steini og hann ekki vel lyktandi.

Ég hef þess vegna farið fram á það að ráðherrann komi hér til sérstakra umræðna í þingsalnum sjálfum þar sem þingmönnum gefist færi á því að ræða þetta sérkennilega mál beint við hana. Ég fer fram á það, virðulegur forseti, að við því verði orðið þegar á þingfundi á morgun, því að málið er brýnt. Frumvarpið sem þessi skrýtni samningur á að byggja á er hér að fara til 3. umr. Það er fagnaðarefni hvernig formaður atvinnuveganefndar hefur brugðist við málinu, vakið athygli á ýmsu sem þar hefur ekki verið sem skyldi, meðal annars því að hér mæti sem fulltrúi Lögmannafélagsins fyrir þingnefnd aðili sem hefur hagsmuni af málinu beint og sjálfur, fyrir nú utan ýmis önnur vensl sem virðast vera í þessu máli.