144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í dag og í gær fáum við fregnir af áformum ríkisstjórnarinnar um að ívilna sumum fyrirtækjum en öðrum ekki. Það er það sem ívilnanir gera alltaf, þær skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Sum fyrirtæki fá afslátt af sköttum í boði stjórnvalda, sum fyrirtæki fá svokallaðan þjálfunarstyrk í vasann frá ríkinu, sum fyrirtæki hafa fengið allt upp í milljarð í ívilnun frá ríki og sveitarfélögum og hafa fengið það í von um að þegar fyrirtækin vaxi og dafni fari þau að borga hér almennilega skatta og gjöld. Sum þessara fyrirtækja komast svo upp með að borga hér nær engan tekjuskatt því að þau hafa komið því svo hentuglega fyrir að skulda móðurfélaginu svo mikið að gróðinn fer allur úr landi. Við þekkjum þetta.

Byggðasjónarmið eru oft sögð ráða nauðsyn ívilnunarsamninga. Í tíð síðustu ríkisstjórnar og þessarar ríkisstjórnar hafa langflestir samningarnir farið til fyrirtækja sem eru staðsett á Suðurlandi. Síðan hvenær þarf að efla byggð á því svæði? Þetta er allt í rugli. Síðasta ruglið er svo samningurinn við Matorku. Þar liggur ekki ljóst fyrir hvort ríkið sé með honum að búa til yfirburðarstöðu fyrirtækis sem fer strax í markaðsráðandi stöðu með styrknum. Að auki vill svo til að eigendur fyrirtækisins eru tengdir ráðherrum ríkisstjórnarinnar og auðvitað vakna upp spurningar um spillingu. Hvernig er annað hægt ef ráðherrum er mikið í mun að láta slíkt ekki fréttast? Af hverju skýra þeir málin þá ekki betur? Af hverju mæta þeir ekki á fundi atvinnuveganefndar? Og hvernig í ósköpunum, virðulegur forseti, geta ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, með allt sitt markaðslof, yfir höfuð réttlætt að ívilna sumum fyrirtækjum umfram önnur?