144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar móttakandi bréfs skilur hvorki upp né niður í því og þegar sendandinn sjálfur veit ekki hvað í því stendur þá er löngu tímabært að draga bréfið til baka.

Virðulegur forseti. Það hefur beinlínis verið pínlegt að fylgjast með því hversu margsaga forustumenn stjórnarflokkanna hafa verið um efnisinnihald í bréfi frá æðstráðandi okkar í utanríkismálum um stærsta hagsmunamál okkar í utanríkismálum. Það er neyðarlegt fyrir okkur að heyra það síðan frá helstu samstarfsríkjum okkar, frá Evrópusambandsríkjunum, að þeir átta sig ekkert á því hvert verið er að fara og biðjast undan því að þurfa að skipta sér af íslenskum innanríkismálum, en eru þó ekki í færum til að svara spurningum um stöðu okkar núna, hvort umsókn okkar er enn í gildi og hvort hægt sé að halda henni áfram.

Ég held að þetta feigðarflan hljóti að vera orðið okkur öllum til þeirrar minnkunar og þess vansa að stjórnarliðar gerðu best í því að hætta að láta ráðherra sína kúga sig með því að hóta þeim því að þeir þurfi að steypa ríkisstjórninni ef þeir ætla að stöðva þennan framgang en kalli einfaldlega eftir því að það sé áréttað, sem allir vita, að umsókn Alþingis er enn í fullu gildi og því fær enginn utanríkisráðherra breytt.