144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara að dæmi hv. þm. Páls Vals Björnssonar og gera að umræðuefni málefni barna og ungmenna, en svo ágætlega vill til að við sitjum einmitt í þverpólitískri nefnd hér á Alþingi sem lætur sig þau mál sérstaklega varða.

Mig langar fyrst, á þeim stutta tíma sem ég hef, til að beina sjónum mínum að stuðningsmiðstöð sem rekin er fyrir börn með sjaldgæfa, alvarlega og ólæknandi sjúkdóma en sú miðstöð var sett á stofn árið 2012 eftir landssöfnun á RÚV á vegum átaksins Á allra vörum. Þessari stuðningsmiðstöð er ætlað að hlaupa undir bagga með fjölskyldum og börnum með sjaldgæfa sjúkdóma, en sá hópur barna hefur oft mjög fá úrræði eftir að sjúkrahúsunum sleppir, og það er auðvitað markmið okkar heilbrigðiskerfis í dag að veik börn geti verið sem mest heima hjá sér og lifað daglegu lífi með fjölskyldum sínum.

Í morgun var ég stödd á öðrum fundi sem tengdist málefnum barna og ungmenna og fjallaði um geðraskanir í þeim hópi. Ég verð að segja að það mál hefur reyndar lengi valdið mér áhyggjum, hversu mjög það færist í vöxt að börnum og ungmennum líði illa andlega. Í því sambandi datt mér strax í hug, þegar ég var að hlusta á umræðurnar í morgun, að það þarf að stofna stuðningsmiðstöð eins og Leiðarljós fyrir börn með geðraskanir og minnka þannig álag á bráðaþjónustu sjúkrahúsanna. Miðað við reynsluna af Leiðarljósi væri einfaldlega mjög gott, hagkvæmt og skynsamlegt að gera það.