144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Eftir heilsdagsumræðu í gær um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og þá brotlendingu sem það bréf var sem hæstv. utanríkisráðherra bar til útlanda þá er að teiknast upp býsna skörp mynd og umræðan leiðir vonandi til þess. Í fyrsta lagi get ég ekki séð að miklar varnir séu uppi gagnvart þeirri túlkun að þingsályktunartillagan frá 2009 sé enn í fullu gildi og aðildarumsóknin verði ekki dregin til baka nema með tillögu og meirihlutaafgreiðslu á Alþingi. Þannig getur þingið staðfest bréfið og skýrt betur en það hefur ekkert komið fram í umræðunni sem leiðir til annars skilnings en að þingsályktunartillagan standist.

Þessu til stuðnings hefur líka verið dregin fram eldri þingsályktunartillaga frá framsóknarmönnum þar sem þeir undirstrikuðu í sínu áliti að aldrei yrði hægt að afgreiða þessi mál öðruvísi en með aðkomu þingsins, þannig að bréfið er nánast orðið ómerkt.

Það hefur líka komið fram um framhald viðræðnanna að eðlilegt væri að leita til þjóðarinnar um staðfestingu eða samþykki eða afstöðu til, skulum við frekar segja, þess hvort halda eigi áfram viðræðum. Ég held að það væri eðlilegast að slík tillaga yrði samþykkt á þessu þingi og gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu sem allra fyrst því það væri gríðarlega mikilvægt að við fengjum úr því skorið hver vilji þjóðarinnar væri og eins og kom fram í andsvörum við ræðumann hér á undan þá munum við að sjálfsögðu lúta þeirri niðurstöðu.

Þegar lagt var af stað með þessa þingsályktunartillögu 2009 þá vissi ég alveg sem einn af þeim sem hafa stutt Samfylkinguna að við höfðum barist fyrir því að aðildarumsókn yrði lögð fram. En við lögðum okkur alltaf fram um að reyna að ná þverpólitískri samstöðu um þetta mál. Þetta væri ekki flokkspólitískt mál heldur mál sem þjóðin ætti alltaf að afgreiða. Menn hafa gagnrýnt að ekki hafi verið lagt fyrir þjóðina að fara í viðræðurnar en það lá alltaf fyrir að hvorki Samfylkingin né aðrir flokkar né Alþingi Íslendinga færu með Ísland inn í Evrópusambandið. Það verður aldrei gert nema með þjóðaratkvæðagreiðslu um samning sem verður lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ég held að mikilvægt sé að halda þessu til haga.

Í þessari umræðu hefur líka komið í ljós það sem á undan hefur gengið á síðasta ári varðandi loforðið í stjórnarsáttmálanum um að leggja ætti fram skýrslu og greiningar á því hvernig staða Evrópusambandsins væri, hvernig staða viðræðnanna væri. Leitað var til Hagfræðistofnunar háskólans um að vinna slíka skýrslu og menn lentu þar í alveg ótrúlegum málum þegar hæstv. utanríkisráðherra, rétt þegar umræðan var að hefjast, þegar við vorum um það bil að lesa skýrsluna, kastaði inn tillögu um að slíta viðræðunum, ætlaðist nánast til að þetta yrði ekkert rætt frekar. Við munum viðbrögðin sem þá urðu sem voru gríðarleg og fjölda undirskrifta, við komumst upp í 53.555 undirskriftir, þar sem fólk mótmælti því að ferlið yrði stöðvað. Það er ótrúlegt að horfa svo upp á það að við erum komin í sömu stöðu aftur ári síðar fyrir dæmalaust klúður hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli þar sem þeir ætluðu að fara í einhvern feluleik og komast fram hjá vilja þjóðar og þings og kasta fram tillögu. Og standa svo á Austurvelli og hlusta á fólk eins og Guðrúnu Pétursdóttur og unga konu, Jónu Sólveigu Einarsdóttur, ræða þessi mál. Sérstaklega fannst mér athyglisvert þegar Jóna Sólveig Einarsdóttir las upp siðareglur ráðherra frá 2011 og fór í gegnum það hvernig ríkisstjórnin fer algerlega á skjön við þær reglur sem fjalla um trúmennsku og heiðarleika og að beita valdinu varlega, af hófsemi og sanngirni og án tillits til eigin hagsmuna. (Forseti hringir.) Þar er líka talað um almannahag og að upplýsa þjóðina, eiga samstarf við o.s.frv. Allt þetta hefur verið brotið og (Forseti hringir.) það hryggir mig að við skulum ekki ná að starfa betur saman og leysa málið með öðrum hætti en þessum leyndargjörningi.