144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa notað hér orð áðan sem er víst ekki heppilegt í þingstörfum og samræmist ekki virðingu þingsins en að því sögðu verð ég að segja að ég verð stundum svolítið ringlaður yfir því nákvæmlega hvað það er sem við meinum með hugtakinu „virðing fyrir Alþingi“. Nú er mér sjálfum ekki mjög annt um það nákvæmlega hvaða orð eru notuð heldur hvernig framkoma fólks og stofnana er gagnvart stofnunum á borð við Alþingi og svo auðvitað þjóðinni sjálfri.

Þegar kemur að því tiltekna málefni sem við ræðum hér, sem eru Evrópumálin, getum við ekki rætt þau efnislega eða öllu heldur, það er enginn tilgangur með því að ræða þau efnislega án þess að ræða framgöngu hæstv. utanríkisráðherra enn betur og enn þá meira í sambandi við það hvernig málið er til komið. Þrátt fyrir það gleðiefni að hæstv. utanríkisráðherra virðist hafa klúðrað fullkomlega samskiptum sínum við Evrópusambandið þegar hann reyndi að slíta viðræðunum án aðkomu Alþingis er tilgangurinn með bréfinu hvað erfiðastur, sem var sá að slíta viðræðunum. Hér hafa meira að segja stjórnarliðar stigið í pontu og glaðst yfir því að þessi aðgerð hafi verið framkvæmd, að þetta skref hafi verið tekið. Tal um það af hálfu Framsóknarflokks að hér hafi eingöngu verið um einhverja pólitíska afstöðu að ræða stenst alla vega ekki miðað við ræður ágætra hv. þingmanna eins og hv. 2. þm. Reykv. n. sem dæmi, en þeir eru auðvitað fleiri.

Hvað varðar Evrópusambandið sjálft þá velti ég stundum fyrir mér hvar umræðan sé úti í samfélaginu. Til að byrja með, þegar um var að ræða hugmyndina að sækja um, fór fólk að ræða þetta eitthvað sín á milli o.s.frv., en sú umræða er föst í spurningunni um hvort eigi að halda áfram viðræðum eða ekki. Og það sem ég hef alltaf sagt um þjóðaratkvæðagreiðslur eða svo lengi sem ég man eftir er að þegar fólk öðlast vald yfir eigin ákvörðun, yfir eigin örlögum, þá fyrst öðlast það þá ábyrgð sem þarf til að standa að baki þeirri ákvörðun. Á meðan það er eingöngu hið háa Alþingi að karpa um þetta mál hefur hinn venjulegi kjósandi í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að sökkva sér af einhverri alvöru í málið eða ræða það við hvert tilefni, hvað þá ef ákvörðunin er tekin af einstaka hæstv. ráðherra.

Þegar Alþingi bregst þá er svarið ekki minna lýðræði heldur meira lýðræði. Ef Alþingi sem stofnun er ekki hæft til að taka þessa ákvörðun þá eigum við að vísa henni til þjóðarinnar, ekki til hæstv. ráðherra. Það er þjóðin sem byggir þetta land. Þetta er einfalt, þetta ætti að vera augljóst. Það er tilgangurinn með bréfinu sem svíður, ekki endilega innihaldið, það fer alla vega eftir skoðunum hvers og eins þingmanns, og jafnvel ef menn gleðjast yfir innihaldinu, jafnvel ef menn gleðjast yfir tilganginum ættu þeir samt ekki að sætta sig við þessi tilteknu vinnubrögð.

Að mínu mati er ekkert vit í því að standa hér og ræða Evrópusambandið efnislega ef ferlið á að vera svona, á meðan hæstv. ríkisstjórn lætur svona við Alþingi. Það er grundvallaratriði. Áður en við ræðum þetta efnislega þurfum við að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að ræða það. Og talandi um virðingu Alþingis, ef við ætlum ekki að ræða það yfir höfuð, hvað erum við þá að gera hér?

Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni í dag er það ekki góðs viti ef menn ætla að takmarka vald sitt alfarið við hvað þeir mega gera tæknilega þannig séð vegna þess að óbreyttir þingmenn mega taka upp á alls kyns óskunda sem væri þingi til háborinnar skammar. Á sama hátt getur ríkisstjórnin verið sjálfri sér til skammar en það þýðir ekki að það sé í lagi og það er ekki í lagi. Og þegar svo er komið þá eigum við að finna út úr því fyrst, ekki sem stjórn og stjórnarandstaða heldur sem Alþingi. Ég legg til að þetta sé það fyrsta og það eina sem við eigum að ræða þar til það er komið á hreint.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.