144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:28]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu og ég deili áhuga hans á aðferðafræði og lýðræðislegum þáttum. Ég veit að við erum báðir áhugamenn um það. En það sem ég hef verið að velta fyrir mér er skoðun hv. þingmanns á þeirri aðferð sem notuð er við samningaviðræðurnar, aðildarviðræður eða aðlögunarviðræður eða hvað menn eiga að kalla það.

Þegar Noregur var að sækja um aðild að Evrópusambandinu var fyrst gerður samningur og einhver samninganefnd sett í það. Svo var hann lagður fyrir þjóðina og ef mönnum hefði líkað niðurstaða samningsins hefðu þeir sótt um. En þetta varð til þess að Evrópusambandið var hryggbrotið tvisvar. Norðmenn sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni og síðan hefur engum dottið í hug í Noregi að fara þessa leið aftur. Evrópusambandið hefur breytt ferlinu síðar þannig að í staðinn fyrir að byrja á því að kanna hvað er í boði, kíkja í pakkann og spyrja svo leyfis, þá er bara sótt um. Það er ekki einu sinni spurt leyfis heldur bara sótt um. Einhver ríkisstjórn kemst til valda sem hefur áhuga á því að fara í Evrópusambandið og þá getur hún bara sótt um aðild að Evrópusambandinu. Svo er liður 1, það er byrjað að hefja aðlögun að regluverki Evrópusambandsins, með öllum þeim kostnaði og ferðalögum sem fylgir, sýna fram á aðlögun að regluverki ESB án þess að spyrja þjóðina. Svo er sett opnunar- og lokunarskilyrði um kaflana sem þarf að ganga að og þeir erfiðustu geymdir þangað til síðast svo hægt sé að ná fram sem mestri málamiðlun. Svo meðan á öllu þessu stendur er höfð í frammi áróðursstarfsemi sem er hugsanlega brot á Vínarsáttmálanum þegar ESB kemur inn í það ríki sem er að sækja um aðild og auglýsir og auglýsir þann málstað sem ríkisstjórnin er að berjast fyrir, sem sagt inngöngu. Þetta þykir mér ekki lýðræðislegt og sérstaklega ekki þegar þjóðin kemur nánast að orðnum hlut þegar hún fær að tjá skoðun sína á málinu, þá er fullveldið komið til Brussel og það þarf að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ná því aftur heim.