144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka áhugann á lýðræðinu hjá hv. 2. þm. Reykv. n. En í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að langfarsælast hefði verið að fara upphaflega með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki vegna þeirra áhyggna sem hv. þingmaður nefnir heldur til að tryggja lögmætið, til að það væri á hreinu fyrir fram hvað þjóðin vildi gera í þessum efnum. Það er þess vegna sem ég legg til að sú ákvörðun eigi heima hjá þjóðinni nú.

Ef hæstv. ríkisstjórn vill trassa þetta verkefni í tvö ár í viðbót fram að næstu kosningum og takast á við málið aftur þegar þjóðin hefur haft sitt að segja, gott og vel, frekar en hún fari að vinna að þessu og klúðra þessu vísvitandi, alla vega klúðra því með einum eða öðrum hætti. En þegar kemur hins vegar að spurningunni um aðlögunarferlið sem hv. þingmaður nefnir þá er tvennt sem vefst fyrir mér í allri þeirri orðræðu. Í fyrsta lagi: Hvaða löggjöf er það sem við eigum að hafa tekið upp vegna umsóknar okkar um ESB og aðildarviðræðna sem við hefðum ekki tekið upp á forsendum EES ? Og í öðru lagi, hvar er þá allt verk ríkisstjórnarinnar í að leggja fram ný frumvörp til að endurheimta það sjálfstæði sem við hljótum að hafa tapað í þessu fjögurra ára umsóknarferli? Mér þætti gaman ef hv. þingmaður gæti svarað mér því.