144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerir að umræðuefni ákaflega merkilegar upplýsingar sem fram komu síðla í gær á vefmiðli Morgunblaðsins. Þar er greint frá því af formanni ráðherraráðs Evrópusambandsins að þetta sé ekki mál sem komi í reynd Evrópusambandinu við. Þetta sé mál sem Íslendingar verði með þeim stjórnskipulegu tækjum og tólum sem þeir hafa að komast að niðurstöðu sjálfir.

Þetta er mjög athyglisvert, ekki síst í ljósi yfirlýsingar sem hæstv. forsætisráðherra gaf um daginn. Þá langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til orða hæstv. forsætisráðherra sem eru svo hljóðandi:

„Við undirbúning þess“ — þ.e. bréfsins — „var haft samráð við Evrópusambandið. Þar á bæ voru menn sammála um hvernig best væri að standa að verki, miðað við afstöðu Íslands, og tilbúnir að vinna þetta með okkur. Við toguðum og þeir ýttu og skipið losnaði en sökk við það sama.“

Þetta segir hæstv. forsætisráðherra. Miðað við þetta hefur hann verið ranglega upplýstur af hæstv. utanríkisráðherra en ég held hins vegar að svo hafi ekki verið vegna þess að ég var á fundi utanríkismálanefndar þar sem hæstv. utanríkisráðherra greindi með öðrum hætti frá málinu. Hann sagði eins og fram kom af hálfu annars þingmanns í gær að ESB hefði ekki gefið neinar skuldbindingar en hæstv. forsætisráðherra heldur því hins vegar fram að það hafi verið samráð, Evrópusambandið hafi verið sátt við þetta og það hafi ýtt á eftir skipinu til að það losnaði af skerinu og til að sökkva því.

Er þetta ekki eftir öllu öðru í þessu máli og öllum afskiptum af því, a.m.k. hæstv. forsætisráðherra? Ég tel að í ljósi þeirra upplýsinga sem hv. þingmaður kemur hér með og við eigum að bera saman við orð hæstv. forsætisráðherra að hann hafi vísvitandi verið að blekkja.