144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir þessum ummælum hæstv. forsætisráðherra og ég staldraði reyndar sérstaklega við hina myndrænu líkingu á skipinu á skerinu og sá fyrir mér annars vegar Evrópusambandsmennina að ýta og hins vegar stjórn Íslands að toga og svo fór skipið af kollinum og sökk. Hæstv. forsætisráðherra orðaði þetta þannig að umsóknin væri ekki dregin til baka heldur hefði hún sokkið. Það var enn eitt málmblómið í orðaleiknum. Menn hafa talað um að núllstilla og fara á byrjunarreit og þarna var talað um að eitthvað hefði sokkið í sæ.

Nú er það svo að hæstv. utanríkisráðherra er í viðtali í Morgunblaðinu í dag og þar fer hann svolítið yfir þessi samskipti. Ég las það einmitt út frá því sama og hv. þingmaður spyr um. Mér sýndist þar vera sagt að samskiptin hefðu allt og sumt verið spjall hæstv. utanríkisráðherra við kollega sinn, lettneska utanríkisráðherrann, og síðan hefðu íslenskir embættismenn einhvers staðar neðarlega í „híerarkíinu“ talað við menn á sambærilegu plani hjá Evrópusambandinu. Evrópusambandið ber eðlilega til baka að það eigi nokkurn þátt í þessu, hafi ekki lofað einu eða neinu eða haft nokkur áhrif á það hvers eðlis það erindi var sem barst frá Íslandi og viðbrögð Evrópusambandsins staðfesta það. Þeir senda boltann rakleiðis heim aftur og segja: Komið þið Íslendingar ykkur niður á það hvernig þið viljið hafa þetta. Þannig að hæstv. forsætisráðherra er í sínum yfirlýsingum greinilega á villigötum. Hann oftúlkar einhverjar upplýsingar sem hann hefur fengið og/eða hann hefur verið hafður að fífli, honum hefur verið gefið meira í skyn en innstæður voru fyrir og hver hefur þá gert það? Er ekki líklegt að það hafi verið flokksbróðir hans, hæstv. utanríkisráðherra? Þannig að hér er ýmislegt málum blandið eins og á svo mörgum öðrum sviðum í þessu og auðvitað er þetta ekki boðlegt. Auðvitað þyrftu þessar upplýsingar að liggja fyrir. Auðvitað eiga samskipti um svona stór mál að vera formleg, vera bókuð. Ef þau eru eitthvað eiga þau að fara fram á fundum sem eru færðir til bókar, samskipti um slík mál eiga að vera með formlegum hætti.