144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eru atburðir liðinna daga allt frá fimmtudagseftirmiðdeginum til marks um það í hverjar ógöngur menn eru almennt komnir með þessi mál. Þá erum við ekki bara að tala um stjórnarflokkana í þröngum skilningi þótt klúðrið sé vissulega í þeirra höndum og þeirra vegum og þeirra ábyrgð hvað varðar þetta blessaða bréf. Mér sýnist þetta vera í yfirfærðri merkingu til marks um það að við erum öll, Íslendingar, í talsverðum vanda með hvernig á að halda á þessu máli. Það verður að lokum að leiða svona mál til lykta og/eða skýra línur í því. Þetta er það veigamikill þáttur í utanríkispólitískum tengslum Íslands að ekki er hægt að bjóða upp á að það sé meðhöndlað með þeim hætti eins og allur skrípaleikurinn, ég verð bara að segja það, virðulegur forseti, í kringum þetta bréf hefur teiknast upp. Óskaplega dapurlegt upp á að horfa.

Ég held að það sé að einhverju leyti vegna þess að menn eru í pólitískum vandræðum og ég ætla ekki að segja að þetta mál sé neitt einfalt fyrir einn eða neinn. Samfylkingin reynir kannski að tala þannig á góðum degi hjá þeim og í hita þess að þeir eru að fara inn á landsfund að þetta sé voðalega einfalt og rakið, en ég er ekki viss um að það eigi eftir að verða þannig hjá Samfylkingunni ef til stykkisins kæmi. Og þetta mál, eðli málsins samkvæmt, leggst ekki í flokksbönd að öllu leyti. Þarna eru sjónarmið landshluta kannski ólík, sjónarmið kynslóða ólík og margt fleira. En þegar svona er ástatt í erfiðum málum er freistingin sú að menn fara að reyna að búa út einhverja vitleysu til heimabrúks. Það held ég að sé aðalatriðið til að öðlast skilning á því hversu hrottalega ríkisstjórnin undir forustu hæstv. utanríkisráðherra hefur náð að forklúðra meðferð málsins. Til að skilja það verður að átta sig á því að menn eru í vandræðum og eru að leita að einhverju til heimabrúks. Og það kostulegasta er auðvitað að hæstv. utanríkisráðherra, eins og hann hefur stundum talað um Evrópusambandið, hraktist þangað í vörn sinni, hann fór að setja allt sitt traust á (Forseti hringir.) að Evrópusambandið skæri hann niður úr snörunni en það hefur Evrópusambandið nú afþakkað að gera.