144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flutti hér í gær ræðu um skýrslu utanríkisráðherra um þetta dæmalausa bréf sem er nú túlkað í raun og veru á alla vegu. Áður hefur komið fram að hæstv. ráðherra hefur haft þrjár eða fjórar skoðanir á því hvað stendur í bréfinu og margir aðrir þingmenn líka, þungavigtarþingmenn eins og formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson. Hæstv. forseti Alþingis hefur kveðið skýrt upp úr með það að viðræðunum hafi ekki verið slitið, það verði ekki gert nema með þingsályktun í gegnum Alþingi. Því er ég sammála svo ég ítreki það. Ég hef nú fimm mínútur til að ræða þetta mál og ég vil byrja þar sem ég endaði ræðu mína í gær, á að tala um fréttir frá Danmörku um að ríkisstjórnarflokkarnir tveir hafa náð samkomulagi eftir viðræður við stjórnarandstöðuflokkana um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi undanþágur ESB-aðildar landsins á sviði dóms- og innanríkismála. Það segir að með samkomulaginu um þjóðaratkvæðagreiðslu standi vonir til að mögulegt verði að gera breytingar á undanþágum ESB-aðildar Danmerkur sem tóku gildi eftir að Danir höfnuðu Maastricht-sáttmála sambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992. Danmörk viðurkennir sem stendur ekki yfirþjóðlegan rétt ESB á sviði innanríkis- og dómsmála auk þess sem Danir eru undanþegnir varnarmálastefnu ESB.

Færum okkur þarna út og hugsum til ríkisstjórnar í Danmörku sem hefur náð samkomulagi við stjórnarandstöðuna, eins og hérna kemur fram. Það er það sem ég vil gera að umræðuefni hér. Ég ætla að reyna að skamma ekki hæstv. utanríkisráðherra meira fyrir þetta klúður, ég gerði það í gær, en vil snúa þessu máli yfir á það hvers vegna í ósköpunum forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, þeir hæstv. ráðherrar Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, væru ekki tilbúnir að fara líka leið og Danir hafa farið, eins og forsætisráðherra Danmerkur hefur farið í og náð samkomulagi. Af hverju reyna menn ekki að jafna þetta mikla deilumál sem er alveg rétt að eru skiptar skoðanir um í öllum flokkum, eins og sá sem situr í forsetastól núna nefndi rétt áðan, skiptar skoðanir í kunningjahópum og fjölskyldum? Af hverju setjumst við ekki niður og reynum að ná sátt um að fara þessa leið?

Stjórnarandstaðan í dag, hluti af henni var í meiri hluta á síðasta kjörtímabili og náði fram þessari samþykkt á Alþingi með stuðningi úr öllum flokkum, leggur í raun fram tillögu til sátta með þeirri þingsályktunartillögu sem hefur verið dreift hér í dag þar sem lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram 26. september nk. um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Þar er sett fram spurning, með leyfi forseta:

„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Já eða nei. Lýðræðið til fólksins. Hæstv. utanríkisráðherra hefur setið hér yfir þessari umræðu allri, eðlilega, en aðrir ráðherrar ekki og ég vil beina sérstaklega spurningu minni til hv. þingmanns vegna þess að mér fannst hann oft tala þannig á síðasta kjörtímabili þegar hann var stjórnarandstæðingur og fór mikinn í ýmsum málum: Af hverju í ósköpunum eruð þið ekki tilbúnir, núverandi stjórnarflokkar, að setjast niður með öðrum formönnum stjórnmálaflokka og reyna að ná samkomulagi um þessa leið? Þetta segi ég meðal annars vegna þess að hæstv. forsætisráðherra lofaði í Hörpu fyrir síðustu kosningar þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram eða ekki. Má ég minna aftur á að oddvitar Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmum fyrir kosningar lásu í raun sama stílinn, loforð um að þetta mál yrði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu, nefndi jafnvel sveitarstjórnarkosningar fyrri hluta kjörtímabils o.fl. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra og ég trúi ekki öðru en að hæstv. utanríkisráðherra geti komið í stutt andsvar og rætt um þennan möguleika sem gæti þá orðið til að sameina þjóðina. Höfum hugfast að margir hörðustu andstæðingar ESB vilja fá þjóðaratkvæði um svona spurningu. Gott fólk, við Íslendingar verðum að reyna að komast upp úr þessum skotgröfum og Alþingi mundi reisa mjög virðingu sína með því að stjórnmálaforingjarnir á Alþingi settust niður og reyndu að ná sátt um svona tillögu sem hér er lögð fram. (Forseti hringir.)

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. utanríkisráðherra: Er algjörlega útilokað að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur geti farið þessa leið með tilliti til þess að foringjarnir lofuðu þessu?