144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þá er þessari umræðu að ljúka og um leið er að ljúka þeim sérkennilega leiðangri sem hófst á miðvikudaginn í síðustu viku með leyndarför hæstv. utanríkisráðherra til útlanda til að afhenda ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn hafði tekið en gætt þess vendilega að upplýsa hvorki þjóð né fjölmiðla um. Það var partur af ákveðinni strategíu sem búið var að leggja. Hún fólst í því að greina þjóðinni frá því og koma tryggilega á framfæri gagnvart erlendum fjölmiðlum að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun sem leiddi til þess að endanlega væri búið að slíta ferlinu sem hófst með ákvörðun Alþingis 2009.

Þó að hæstv. ráðherrar geti skotist út úr ráðuneytum sínum til að tala við fjölmiðla og leita skjóls í ráðuneytunum aftur þegar þeir hafa lokið sér af, er það þannig að í ræðustól Alþingis er ekki að finna neitt skjól. Hér verða hæstv. ráðherrar að svara því sem þeir eru spurðir um. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra í fyrsta andsvari mínu við ræðu hans, um skýrsluflutninginn í gær, um hvort hann teldi og gæti fært rök fyrir því að í bréfinu sem kynna átti ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri að finna einhver málefnaleg eða stjórnskipuleg rök sem kæmu í veg fyrir að ný ríkisstjórn mundi, ef hún vildi, taka upp þráðinn þar sem núverandi ríkisstjórn sleit hann. Hæstv. ráðherra svaraði mjög skýrt. Hann sagði að ekkert væri í því að finna sem bundið gæti hendur næstu ríkisstjórnar. Það er kjarni þessa máls.

Þá liggur það alveg skýrt fyrir að þrátt fyrir tilraunir þriggja ráðherra til að halda öðru fram á þessum tæplega viku leiðangri getur ný ríkisstjórn, ef hún svo kýs, aftur tekið til óspilltra málanna. Það þýðir í reynd að það mun ekki, eins og greina mátti af frammíkalli hæstv. ráðherra í gær, vera hægt að búa svo um að ekki sé hægt að fara aftur í umsóknarferlið nema sækja um að nýju. Komið hefur fram að það hefði getað skaðað stöðu Íslands verulega.

Margir, vitaskuld ekki allir, telja að það sé eftirsóknarvert og skapi tækifæri fyrir Ísland að vera í þeirri stöðu að geta gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru. Ég hef sjálfur litið á það sem tæki en bara tæki til að koma Íslandi inn í umhverfi þar sem ríkir stöðugleiki, þar sem hægt er bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga að gera áætlanir fram í tímann. Í öllu falli finnst mér sem stuðningsmanni Evrópuaðildar að ég eigi heimtingu á því að þeir sem eru andstæðingar mínir í því máli leggi þá fram sitt eigið plan. Hvernig ætla menn að halda úti krónu ef áætlun ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta gengur eftir? Hvernig ætla menn að gera það? Það hefur aldrei verið sýnt tryggilega fram á það og þess vegna líður mörgum best að baki gjaldeyrishafta. En í öllu falli, þetta liggur fyrir sem niðurstaða í lok þessa ferðalags.

Þá finnst mér að við eigum við lok umræðunnar að þakka hæstv. forseta þingsins og eftir atvikum öðrum þeim úr stjórnarliðinu eins og til dæmis hv. þm. Birgi Ármannssyni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir að hafa staðið vörð um fullveldi Alþingis. Það er til nokkuð í stjórnskipan okkar sem heitir fullveldi Alþingis. Það þýðir að Alþingi er sú stofnun sem er æðsta ákvörðunarvaldið og við vitum að það er fyrst og fremst tvennt sem reisir fullveldi Alþingis skorður; það er vitaskuld stjórnarskráin en það eru líka venjuhelgaðar stjórnskipulegar leikreglur. Ég verð að segja í lok umræðunnar að mér finnst að Alþingi hafi tekist að tryggja þær.

Sú túlkun á þingræðisreglunni, sem er undirstaða alls okkar starfs, sem fram kom að minnsta kosti hjá tveimur hæstv. ráðherrum og felur það einfaldlega í sér að ef þeir telji að það sé meiri hluti fyrir vilja þeirra á Alþingi geti þeir gefið út tilskipanir um það, heitir ráðherraræði, jafnvel án þess að draga fram meiri hlutann í atkvæðagreiðslu á þingi, en því hefur verið mótmælt tryggilega. Það skeið ríkti hér um nokkurra ára bil, við töldum að það væri farið. Það bankaði á dyrnar núna en nú er búið að hrinda því aftur. Þá finnst mér að næsta mál á dagskrá sé að reyna að leita að víðtækri samstöðu um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við höldum viðræðunum áfram eða ekki.