144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég muni eftir því að ekki hafi verið farið eftir þingsályktun sem hafi verið samþykkt á Alþingi. (HHj: Farið í gegn.) Farið í gegn, já. Ég verð að viðurkenna fyrir hv. þingmanni eins heiðarlega og hægt er, ég man ekki eftir því akkúrat varðandi utanríkismál. En það breytir því ekki að það er alltaf gott að vera fyrstur til, svo sem, það skiptir ekki öllu máli.

En það er hins vegar staðreynd sem hv. þingmaður ætti að vita að fjöldinn allur af þingsályktunum sem samþykktar eru af Alþingi ná aldrei nokkurn tíma fram að ganga. Það er ekkert gert með þær, því miður. Ég nefndi hér áðan, reyndar hlutu þær ekki allar samþykkt Alþingis, ég tek það fram, að 14 þingsályktunartillögur á síðasta kjörtímabili bara um þjóðaratkvæðagreiðslur náðu ekki fram að ganga og ég ítreka, þær náðu ekki allar í gegnum þingið nota bene. Það lýsir vandræðaganginum með þingsályktanir að þær eru ekki bindandi, þessar almennu þingsályktanir. Og hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því að þær þingsályktanir sem ekki byggja á til dæmis 21. gr. stjórnarskrárinnar eða sækja lagastoð eitthvert annað, þær eru ekki bindandi fyrir neina ríkisstjórn. Þess vegna og ástæðan fyrir því er væntanlega sú að ríkisstjórn sem fer frá völdum, eins og síðasta ríkisstjórn sem tórði reyndar í fjögur ár, stórmerkilegt, hún hefði getað samþykkt alls konar undarlegar þingsályktunartillögur. Og væri þá ætlast til þess að núverandi ríkisstjórn væri að fylgja eftir öllum stefnumálum fyrrverandi ríkisstjórnar? Það gengur ekki upp. Það gengur alls ekki upp að sjálfsögðu þinglega, gengur gegn þingræðisreglunni nema meiri hlutinn sé skuldbundinn til að fylgja eftir ályktunum annars þings, og svo er þetta líka pólitískt algerlega galið að halda að það sé með þeim hætti. En ég hugsa, þó að ég muni það ekki núna, að finna megi þingsályktanir sem hafi verið samþykktar á Alþingi, þó að þær séu ekki í utanríkismálum, sem gert hafi verið lítið með í það minnsta. En það er algerlega hafið yfir vafa að ríkisstjórnin er ekki bundin af þessari þingsályktun.