144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nefnilega málið að hæstv. ráðherra misnotar vald sitt hér gagnvart Alþingi. Tillagan í fyrra sem hæstv. ráðherra var skikkaður til að koma með eftir umfjöllun í forsætisnefnd, lögfræðiálit og fleira, er staðfesting á því að ríkisstjórnin þá með hann innan borðs taldi að þingsályktunartillögu þyrfti á Alþingi til að slíta viðræðum. Það þyrfti nýja samþykkt, eins og hv. þm, Ásmundur Einar Daðason og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sögðu í greinargerð með tillögu sinni. Það getur enginn slitið viðræðum nema með nýrri tillögu og samþykkt Alþingis. Það þarf ekki fleiri vitnanna við. Tillagan í fyrra var staðfesting ráðherra á því að hann hafði á röngu að standa sumarið 2013 þegar hann ætlaði að gera þetta með gerræðisvaldi.

Mig langar aftur að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti virkilega ekki farið aðeins upp úr skotgröfunum, lyft sér upp og lagt það til við foringja sinn sem lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar, að menn setjist niður og reyni að ná sátt um að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu um halda hvort eigi (Forseti hringir.) viðræðunum áfram. Það er spurning mín til hæstv. ráðherra.