144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

fólksfækkun og byggðakvóti.

[10:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við höfum nýlega fengið í hendur mannfjöldauppgjör Hagstofu Íslands, tölur frá henni um útkomu ársins 2014 eru nýlega komnar fram. Landsmönnum fjölgaði um ein 3 þúsund eða þar um bil. Við erum að skríða yfir 330 þús. íbúa markið. Það gekk ekki jafn vel alls staðar í landinu. Íbúum Djúpavogs fækkaði um 10%. Þar fækkaði um tæplega 50 manns þannig að væntanlega hafa flutt þaðan í burtu milli 50 og 60 íbúar á móti einhverjum sem hafa komið í staðinn. Þar sjáum við svart á hvítu afleiðingarnar af því að útgerðarfélagið Vísir fór í burtu af staðnum með 90% allra veiðiheimilda sem Djúpivogur hefur byggt á undanfarin ár. Reyndar fór það frá Húsavík og er að fara frá Þingeyri líka með tilheyrandi áhrifum á þá staði.

Þarna fóru á einu bretti í burtu veiðiheimildirnar á sunnanverðum Austfjörðum, kvóti Breiðdalsvíkur og Djúpavogs sem þar hefur verið undirstaða byggðar um áratugaskeið. Nú er verið að reyna að byggja eitthvað upp í staðinn með 400 tonna veiðiheimildum frá Byggðastofnun sem að sjálfsögðu er betra en ekki neitt en það hljóta allir að sjá að það dregur skammt á móti 3–4 þús. tonnum af afla sem þar var unninn undanfarin ár með miklum umsvifum. Þetta er þeim mun dapurlegra sem gengið hefur vel á Djúpavogi undanfarin ár og þar var fólksfjölgun og bjartar horfur þangað til þetta áfall varð. Nú er það svo að hæstv. ráðherra á samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða að leggja fram þingsályktunartillögu nú á þessu vori, að ég best veit, um meðal annars ráðstafanir í byggðamálum eða hliðarráðstafanir í sjávarútvegskerfinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra þegar blasir við okkur hvílíkar hamfarir þetta eru sem þetta byggðarlag verður fyrir, Djúpivogur, í beinum tölum hvort þess sé að vænta að (Forseti hringir.) svigrúm Byggðastofnunar til að gera betur á þessum sviðum og auka það magn veiðiheimilda sem menn hafa þar úr að spila verði aukið.