144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

[10:40]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga. Löggjöfin er í grófum dráttum þannig að hvaða fyrirtæki sem er af ákveðinni stærð, svo lengi sem það er ekki staðsett á höfuðborgarsvæðinu, getur sótt um ívilnanir sem gefa afslátt af sköttum og gjöldum upp á allt að 770 millj. kr. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að lítil fyrirtæki eins og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa ekki mikla fjárfestingu á bak við sig eru ekki tæk fyrir ívilnanir. Þessi litlu en oft ört vaxandi fyrirtæki hljóta ekki náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar til ívilnana, ekki samkvæmt þessum komandi lögum a.m.k.

Vegna þessa atriðis og fjölda annarra er það svo að ívilnanir verða alltaf þannig að þær skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Sum fyrirtæki en ekki önnur fá afslátt á sköttum, sum fyrirtæki fá svokallaðan þjálfunarstyrk í vasann frá ríkinu. Þetta fá fyrirtækin allt upp á þá von að þegar þau verða stöndug fari þau að borga almenna skatta og gjöld. Það hefur ekkert endilega alltaf verið raunin. Við þekkjum umræðuna um álfyrirtækin sem hafa aldeilis fengið hafnir byggðar og stærstu ívilnanirnar, en svo fer allur gróðinn til móðurfyrirtækisins í útlöndum og við fáum lítinn sem engan tekjuskatt.

Þá er það nýjasti samningurinn við Matorku. Ég vil spyrja ráðherrann út í hann, án þess að ég hafi nokkuð við það fyrirtæki að athuga per se. Þar er til staðar blómlegur iðnaður þar sem fyrirtækið er þegar búið að byggja sig upp á markaðslegum forsendum. Ég spyr: Af hverju er ráðherrann að skekkja samkeppnina með ríkisfé? Hvernig getur hún á grundvelli stefnu síns flokks sem talar mikið um frjálst markaðshagkerfi og mátt samkeppninnar staðið fyrir þessu inngripi á markaðinn og skekkt stöðuna á þennan hátt?