144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

[10:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Með stefnu ríkisstjórnarinnar viljum við efla samkeppnisrekstur, við viljum efla fjárfestingu og nota til þess öll þau tæki og tól sem við getum. Við getum haft skoðanir á ívilnunum. Hv. þingmaður nefndi að sprotafyrirtæki ættu þess ekki kost með þessari löggjöf að sækja um ívilnanir, en þá get ég upplýst hv. þingmann um það að við erum með aðrar aðgerðir til þess sérstaklega að hvetja til nýsköpunar, veita skattfrádrátt vegna rannsóknar og þróunar. Við erum með samkeppnissjóði, tækniþróunarsjóði og leitum allra leiða til þess að auka nýsköpun.

En aftur að ívilnunum og ívilnunum almennt. Við getum horfið aftur til baka til ársins 1966 þegar fyrsti fjárfestingarsamningurinn var gerður við álverið í Straumsvík. Árið 2007 settist ég á þing og efni jómfrúrræðu minnar á þingi var að fagna því að álverið í Straumsvík óskaði eftir því að losna undan þeim 40 ára sérsamningi vegna þess að skattkerfið á Íslandi væri orðið samkeppnishæfara og betra á þeim tíma en sérsamningurinn. Þangað vil ég stefna. Þangað vill minn flokkur að ríkisstjórnin stefni. En við erum ekki komin þangað. Þá höfum við um tvennt að velja, að veita engar ívilnanir og keppa þá ekki á jafnréttisgrunni við önnur lönd og önnur ríki sem undir t.d. Evrópureglum um ríkisstyrki geta og hafa veitt ýmsar ívilnanir til ýmissa fyrirtækja, eða við getum verið með slíkt kerfi. Það er það sem við höfum ákveðið, að hafa reglurnar almennar og skýrar, nákvæmlega eins og gert var á síðasta kjörtímabili, frekar en að hafa reglurnar þannig að það sé í höndum einstaka ráðherra eða einstakra aðila að veita styrki til þeirra sem þeim eru þóknanlegir.

Ég mun koma að (Forseti hringir.) Matorkusamningnum í seinna andsvari.