144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

[10:46]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við getum opnað landið, segir hv. þingmaður. Það er akkúrat það sem verið er að gera, við erum að vinna að því að afnema höftin þannig að það sé sagt.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að sprotafyrirtæki séu sérstaklega útilokuð í þessu ólíkt því sem var í fyrri löggjöf. Þessar reglur byggja á ríkisstyrkjakerfi Evrópusambandsins. Þær eru byggðar á nákvæmlega sömu forsendum og á síðasta kjörtímabili. Fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðnar kríteríur hvað varðar fjárfestingu og störf en að öðru leyti geta fyrirtæki í öllum atvinnugreinum sótt um á grundvelli þessarar almennu löggjafar, sem ég vil ítreka samt að er enn þá til meðferðar í þinginu en við höfum unnið þessa samninga og þar með talið Matorkusamninginn á grundvelli þessara almennu heimilda.

Nú er þingið með málið til meðferðar. Ef þingið telur nauðsyn á að takmarka skilyrðin og gera á þeim breytingar hefur (Forseti hringir.) þingið það í hendi sér, en það verður að hafa (Forseti hringir.) í huga að það hefur afleiðingar og getur (Forseti hringir.) orðið til þess að við getum ekki keppt um (Forseti hringir.) önnur verkefni sem (Forseti hringir.) við erum að sækjast eftir að draga hingað til landsins. Menn verða (Forseti hringir.) að hafa það í huga.