144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

framtíðarsamskipti Íslands og Evrópusambandsins.

[10:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um það hvernig hann sér fyrir sér Ísland og samskipti þess við Evrópu í framtíðinni. Nú liggur fyrir að þetta margumrædda bréf sem hæstv. ráðherra sendi og var til þess ætlað á einhverjum tímapunkti að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið hafði ekki tilætluð áhrif, sem betur fer. En upp kemur umræðan í hvert sinn sem hæstv. utanríkisráðherra fer út í þetta mál og við verðum öll að velta fyrir okkur EES-samningnum og stöðu Íslands innan Evrópu með hliðsjón af honum. Við fáum hér inn frumvarp eftir frumvarp sem okkur er sagt að við þurfum að innleiða, og sömuleiðis leggur ríkisstjórnin sjálf mikla áherslu á það að mörg þessara frumvarpa nái í gegn, sem er kannski gott og blessað. En mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir svörum við því, aðildarviðræðuferlið við Evrópusambandið er ekki svarið, gefum okkur að það sé rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra, hver er framtíðin gagnvart Evrópusambandinu? Hvað eigum við að gera í EES? Eigum við að halda áfram ótrauð þessu aðlögunarferli, sem það sannarlega er? Með aðlögunarferli á ég við lagalegt aðlögunarferli. Þetta eru lög sem við þurfum að setja, sem felur mun meira í sér en nokkur IPA-styrkur eða eitthvað því um líkt. Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. utanríkisráðherra sér þetta fyrir sér til lengri tíma.