144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

framtíðarsamskipti Íslands og Evrópusambandsins.

[10:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vandi minn er sá að ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um það að EES sé það besta sem við höfum í viðskiptum við Evrópu. En það sem ég skil ekki alveg felst í því að hæstv. ráðherra telur eins og ég að það sé einsýnt að við höldum áfram í EES, ég sé engin skýr merki eða ríkan vilja til þess að endurskoða það, og þá þurfum við að vita hvernig við ætlum að haga þessu til lengri tíma.

Hæstv. utanríkisráðherra getur ekki spáð fyrir framtíðina, ég ber virðingu fyrir því, ekki heldur sá sem hér stendur. En við þurfum að hafa einhverja áætlun til lengri tíma vegna þess að EES heldur áfram að knýja fram löggjafir hérlendis og það styttist í að stjórnarskrárbreytinga þurfi við til þess að uppfylla samninginn, þannig að einhvers staðar þurfum við að endurskoða málin frá grunni. Ætlum við að endurskoða EES-samninginn eða ætlum við að halda áfram í þessu aðlögunarferli, sem og það er, eða hvað? Mér finnst vanta langtímahugsjón. Ég sé ekki að hún sé til staðar yfir höfuð.