144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

húsnæðismarkaður og afnám verðtryggingar.

[10:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að það er gríðarlegur vandi á húsnæðismarkaði hér á landi og ekki síst á leigumarkaði og einnig fyrir þá sem eru að koma inn á markaðinn núna í fyrsta sinn. Flokkur hæstv. ráðherra lofaði öllu fögru í þessum efnum, bæði í kosningabaráttu og líka þegar hann tók hér við fyrir bráðum tæpum tveimur árum. Síðan þá hefur ekkert gerst. Lofað var afnámi verðtryggingar. Menn hafa talað digurbarkalega um að gera eigi breytingar á húsnæðiskerfinu en enn þá er ekkert að frétta tveimur árum síðar annað en einhverjar nefndir og niðurstöður einhverra nefnda.

Förum þá aðeins yfir það hverju þær nefndir hafa verið að skila af sér. Ein þeirra skilaði því af sér að í byrjun árs 2015 ætti að stíga fyrstu skref í afnámi verðtryggingar. Nú erum við komin aðeins í rúmlega byrjun árs 2015 og það er ekkert að frétta.

Virðulegi forseti. Það er engin mál komin inn í þingið önnur en þau að búið er að opna löggjöfina þannig að menn eru að horfa til þess að fara að taka upp gengistryggð lán að nýju og heimila þau. Fyrir tæpu ári samþykkti Alþingi sömuleiðis þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um bráðaaðgerðir varðandi leigumarkaðinn og samþykkti að vísa þeirri þingsályktun til ríkisstjórnarinnar. Nú er liðið ár og það er ekkert komið fram af þeim.

Ég spyr því enn og aftur: Hvað er að frétta af húsnæðismálum og afnámi verðtryggingar? Vegna þess að við og fólkið sem bíður eftir svörum fær þau ekki. Það heyrir engar fréttir af þessum málum.

Með öðrum orðum, hér hafa stór loforð verið gefin, hér bíða stórir hópar eftir úrræðum, hér hafa verið samþykkt þingmál sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram en það gerist ekki neitt annað en að málin virðast bara vera að sofna í einhverjum nefndum.