144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[11:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrra málið, í framhaldi af fyrri spurningunni um hafið, ætla ég að taka hv. þingmann á orðinu og leggja áherslu á að við hröðum þeirri vinnu sem við höfum þegar byrjað að skoða.

Varðandi Evrópustefnuna og EES-samninginn — eins og hv. þingmaður man er ekki nein sérstök fjárveiting til þessarar hagsmunagæslu á fjárlögum þessa árs. Einstök ráðuneyti hafa hins vegar verið að reyna að forgangsraða undanfarið í þessa veru, leggja meiri mannafla og áherslu á EES-samninginn. Eitt ráðuneyti — ég held að það hafi verið innanríkisráðuneytið, mig minnir það — var að senda starfsmann til Brussel til að sinna þessum verkefnum og bætist þá einn starfsmaður þar í púkkið. Hann kemur þá vitanlega úr ráðuneytinu. Ég mundi að sjálfsögðu gjarnan vilja sjá að meiri fjármunir yrðu settir á næstu fjárlögum í þessi verkefni. Ef við ætlum að sinna þessari hagsmunagæslu okkar eins vandlega og við mögulega getum þá er full þörf á því.

Ég held að besta leiðin til þess sé að efla í ráðuneytunum þær skrifstofur sem eru að sinna þessu og að tryggja jafnframt að öll fagráðuneyti séu með sérfræðinga úti í Brussel til að fylgjast betur með, til að eiga samstarf við Noreg og Liechtenstein, sem við eigum í dag, en enn þá betra samstarf, því að því fleiri sem eru að vakta þetta því betra. Við getum gripið inn á fyrstu stigum máls, getum komið með athugasemdir, en til þess þurfum við að hafa mannafla og fjármuni. Í ljósi þess hvernig niðurskurður hefur verið í ríkisfjármálunum höfum við einfaldlega þurft að sætta okkur við að þetta mál hefur ekki verið fremst í forgangsröðinni. Ég vona að þetta þokist þangað.