144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[11:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er greinilega núllstilltur eftir gærdaginn, að minnsta kosti er hann búinn að varpa af sér klæðum götustráksins sem hann fór í hér undir lok ræðu sinnar og umræðunnar í gær þegar hann fór í sérkennilegan ham, en hann er orðinn utanríkisráðherra aftur og ég kann því vel því að mér finnst miklu betra að tala við menn sem kunna mannasiði. Af því að ég kann þá líka sjálfur ætla ég að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna sem að mörgu leyti var prýðileg. Og sérstaklega var hún sköruglega flutt.

Ég vil líka í upphafi orða minna taka undir með hæstv. utanríkisráðherra, það ber að þakka það mannval sem við eigum í gegnum ræðismenn og aðalræðismenn sem vinna ólaunað fyrir Íslendinga hvenær sem eitthvað kemur upp á. Síðan ætla ég líka að taka ómakið af hæstv. ráðherra og þakka hans eigin starfsmönnum, vegna þess að hann gleymdi því, fyrir það ósérhlífna starf sem þau vinna líka fyrir Ísland og Íslendinga í útlöndum. Ég þakka þeim sömuleiðis fyrir hönd okkar þingmanna fyrir að vera alltaf boðin og búin að veita okkur upplýsingar og greiða okkur förina í gegnum rangala myrkviða sumra reglugerða sem við þurfum reglulega að fara yfir og koma frá stóra kaupfélaginu í Brussel.

Frú forseti. Á þessum tímamótum er ekki hægt annað miðað við þá atburði sem hafa hér átt sér stað en að fara yfir það sem hæstv. ráðherra skautaði náttúrlega algjörlega fram hjá í sinni ræðu og það er staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Í því samhengi mætti auðvitað líka ræða þá Evrópustefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið upp. Eins og kom fram í andsvari við formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áðan er henni ekki einu sinni fylgt þrátt fyrir allar þær yfirlýsingar sem gefnar voru þegar sú stefna var tilkynnt með lúðrablæstri og söng fyrir nokkrum missirum.

Á þessum tímamótum, herra forseti, þegar næstum því tvö ár eru liðin frá því að hæstv. ríkisstjórn tók við og hæstv. utanríkisráðherra hefur fengið frið frá þinginu til að leggja fram sína stefnu og móta hana út frá þeim punktum sem hann lagði fram í upphafi ferilsins er kannski ekki heldur úrleiðis að menn fari yfir hvað það var sem hann sagði að yrðu áherslusviðin og hvernig hann hefur síðan fylgt þeim eftir. Þegar kjörtímabilið er hálfnað væntir maður þess að hæstv. ríkisstjórn fari yfir, þegar svona umræður ber að höndum, hvað hún hefur unnið og hvaða sprota hún hefur lagt inn í framtíðina. Þau svið sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann tók við embætti að hann mundi leggja mikla áherslu á voru fjögur. Í fyrsta lagi samvinna til vesturs, til Kanada og Bandaríkjanna, í öðru lagi að taka EES-samstarfið miklu fastari tökum. Í þriðja lagi ætlaði hann að byggja upp norðurslóðir og í fjórða lagi var það fríverslun. Það var eitt af því sem hæstv. ráðherra sagði að yrði hans aðaláhersla. Ég sat undir þessari ræðu, hafði líka lesið mig í gegnum þær fjölmörgu blaðsíður sem er að finna í skýrslunni og beið eftir því að heyra nýmæli í ræðunni. Í engum þessara málaflokka var að heyra neitt nýtt. Það birtist allt í einu eftir tvö ár að keisarinn er klæðlaus. Og það sem kemur meira að segja fram í þessari skýrslu er að meginmálaflokkar eins og yfirstjórn EES-mála, eins og mótun framþróunar í norðurslóðamálum, hefur verið tekið úr ráðuneytinu og sett undir stjórn sérstakrar ráðherranefndar sem forsætisráðherra er yfir. Ég ætla ekki að segja að það sé mat ríkisstjórnarinnar á verkum ráðherrans, en það er búið að plokka út úr ráðuneytinu tvö af þeim fjórum sviðum sem hæstv. ráðherra sagði að væru mikilvægustu málasviðin, þau sem hann ætlaði að leggja áherslu á. Það er mjög merkilegt.

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðherra tók við hafði hann uppi stór orð um það að í tíð fyrri ríkisstjórnar hefði meðal annars verið látið liggja í lág hið góða samband Íslands og Bandaríkjanna. Eðlilega er mikilvægt fyrir okkur að halda góðu samstarfi við þá granna, ekki síst vegna þess að við höfum langt minni og munum að við höfum verið í sérstöku sambandi við það ríki allar götur frá því að það var fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Íslands. Hvað blasir svo við? Hæstv. ráðherra fær ekki einu sinni fundi með ráðherrum í Bandaríkjunum. Hann fær ekki einu sinni fundi með hæstv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna til að reyna að móta stefnu í samskiptum okkar. Þeim yfirlýsingum sem lágu fyrir af hálfu Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, um vilja Bandaríkjanna til að fara í það að búa til stefnu í norðurslóðamálum er ekki sinnt. Það mesta sem hæstv. ráðherra hefur getað gert til þess að bæta samskipti Bandaríkjanna og Íslands er fimm mínútna fundur með Chuck Hagel sem nú er ekki lengur á meðal vor, a.m.k. ekki sem ráðherra, og þeir kölluðu „photo-op“. Það er á þessu sviði sem samskipti Íslands og nánasta samstarfsríkis okkar til 50 ára er í dag.

Ég minnist þess að fyrri ríkisstjórn var legið á hálsi fyrir að hafa komið málum svo fyrir að það væri verið að setja á okkur þvingur út af hvalamálum. Þessi hæstv. ráðherra hafði uppi stór orð um að hann ætlaði aldeilis að kippa því í liðinn. Hvað hefur gerst síðan þá? Jú, það er búið að herða þá skrúfu og nú síðast voru birt skjöl í Bandaríkjunum þar sem beinlínis kemur fram að vegna þess að hæstv. ráðherra hefur engu náð fram í samtölum við Bandaríkin þar um er bandarískum forustumönnum bókstaflega bannað að eiga samskipti við okkur. Þannig hefur tekist til með hið ágæta áherslusvið að bæta samskiptin við Bandaríkin.

Tökum norðurslóðir, málaflokk sem í tíð fyrri ríkisstjórnar var hafinn til vegs. Með orðum Vals Ingimundarsonar prófessors var það upphaf þess að norðurslóðir voru settar á dagskrá og hann sagði sem svo að áður hefði það bara verið ritúalistísk nálgun, það hefði verið minnst á þau, en sú ríkisstjórn hefði látið verkin tala. Ég gæti talið upp þá fjölmörgu samninga sem gerðir voru. Ég gæti talið upp þau fjölmörgu verk sem gerð voru. Eitt skildum við þó eftir í því sem var komið að framkvæmd, að við töldum, að það ætti að fara að ræða við aðrar þjóðir um að byggja upp öryggismiðstöð hér á norðurslóðum. Það var ekki minnst á það í ræðu hæstv. ráðherra. Þó er þetta það sem mestu skiptir í dag til þess að varðveita framsókn okkar inn á norðurslóðir. Um þetta lágu fyrir fjölmörg samtöl og vilji en núna þegar maður hittir þessa ráðamenn, þegar þeir koma til dæmis til fundar við utanríkismálanefnd, kannast þeir bara ekki við málið. Og hvað er að gerast í þessu? Jú, það er einn maður hjá Landhelgisgæslunni, ekki hjá hæstv. utanríkisráðherra, að vinna í málinu. Kynni skýringin að vera sú að það er búið að plokka líka þennan málaflokk undan hæstv. ráðherra? Það er líka forsætisráðherra sem fer með það. Ég held að varðandi þessi mál, eins og norðurslóðir, séu valdmörkin orðin svo óljós að það gengur ekkert undan hæstv. ráðherra í þessum málaflokki.

Við getum tekið EES. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir úr þessum stóli og nefndi meira að segja upphæðir sem hann ætlaði að tryggja til að rækta betur samninginn og framfylgja honum. Og það var í krafti þingsályktunar sem hæstv. forseti, Einar K. Guðfinnsson, fékk á sínum tíma samþykkta. Þessu lýsti hæstv. ráðherra yfir og þetta átti að vera aðalmálið. Hvað gerist svo? Hæsti maður okkar hjá ESA kemur hingað, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, og lýsir því yfir að EES-samningurinn og rekstur hans sé á hrakhólum, hann eigi hvergi heima. Hann orðaði það svona í útvarpinu í gær: Hann á ekki heima hjá hæstv. ráðherra. Nei, það er búið að útvista honum eitthvað. Og hann segir: Það vantar peninga. Sem sagt, manninum sem kom hingað og lofaði fjármagni er féskylft. Meira að segja EES-samningurinn sem hæstv. ráðherra réttilega segir að sé mikilvægasti samningurinn að því er varðar atvinnulíf okkar í dag er illa rekinn vegna þess að hæstv. ráðherra stendur ekki í stykkinu. Það er bara svona. Þetta verður maður að segja núna þegar tvö ár eru liðin.

Fjórða málið er fríverslun. Fyrri ríkisstjórn lagði mikla áherslu á það að bæta og auka fríverslunarnetið. Þessi hæstv. ráðherra sagði það algjörlega skýrt að það ætti að vera eitt hið mikilvægasta. Í tíð fyrri ríkisstjórnar einbeittum við okkur með mikilli hörku, bæði í gegnum EFTA og tvíhliða samninga, að því að bæta þetta net. Á meðan hæstv. ráðherra var að vísu í ham götustráksins í gær dró hann í efa að fyrri ríkisstjórn hefði lokið fríverslunarsamningi við Kína. Ég rifjaði þá upp fyrir honum eða viðurkenndi að kannski væri ég farinn að hníga svo að aldri að minni mitt væri farið að glepja mig en ég ætti þó að minnsta kosti ljósmyndir af því að ég sat með forráðamönnum Kína og forsætisráðherra Íslands og skrifaði undir samninginn sem hæstv. ráðherra hrósaði sér af í dag alveg eins og hæstv. ráðherra hrósar sér í þessari skýrslu af því að hafa hrundið af stað viðræðum við Mercosur um fríverslun. Það eru kannski einhver takmörk fyrir því hvað menn geta gengið langt í því að skreyta sig með lánuðum fjöðrum. Það samstarf hófst 2001, var tekið síðan upp í tíð minni, bara svo það liggi hér fyrir, en ég ætla ekki að hrósa mér af því, frekar en að ég segi með kínverska fríverslunarsamninginn: Það var Valgerður Sverrisdóttir sem átti frumkvæðið að því.

Herra forseti. Hvað hefur þá gerst varðandi fríverslun í tíð þessarar ríkisstjórnar? Það er tvennt sem þingið hefur lagt mikla áherslu á. Annað er Japan. Japan er fimmta stærsta viðskiptaveldið sem við eigum samstarf við. Þessi hæstv. ráðherra sinnir hagsmunamálum okkar þannig að þegar þingið spyr hann: Hversu mikla tolla greiðum við á móti tollum Japan? þykist hann ekki vita það. Það er svarið sem þingið fékk. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um að þegar ég fór úr ráðuneytinu var það gróflega metið þannig að Japan þyrfti ekki að greiða tolla af innflutningi til Íslands nema upp á 2–3% meðan við værum að borga að lágmarki 5% tolla á 75% af öllum innflutningi okkar. Og hvað ætlar þingið að gera í þessu? Eins og svo oft áður mótar það stefnuna þegar ríkisstjórnin vinnur ekki verkin sín. Hér hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um fríverslun við Japan og hvað er hæstv. ráðherra að gera í því? Jú, við fengum hingað Makino, aðstoðarutanríkisráðherra Japan, til fundar við fimm fulltrúa úr utanríkismálanefnd. Hver og einn einasti lagði áherslu á mikilvægi þess að fríverslun yrði tekin upp við Japan. Það kom honum á óvart. Hann var að koma beint úr utanríkisráðuneytinu og það hafði ekki verið nefnt við hann. Jæja, það kann að hafa verið rangt hjá honum vegna þess að ég rakst á litla frétt þar sem sagt var að utanríkisráðherra Íslands hefði „viðrað“ fríverslun við Japan. Herra trúr.

Grænland er eitt af þeim málum sem þingið ber fyrir brjósti. Það vill auka samskipti við Grænland. Það er mikilvægt fyrir okkur upp á framtíðina að eiga fríverslun við Grænland. Við eigum að vísu samning síðan 1985 sem skiptir ákaflega litlu máli. Það vantar ekki viljann hjá hæstv. ráðherra til að fara í fríverslunarsamninga við Grænland, en á hvaða forsendum? Jú, í skýrslunni kemur það fram núna 2015 að það vill hann gera með því að víkka út Hoyvíkursamninginn en það eru tvö ár liðin síðan Grænlendingar gerðu það algjörlega skýrt, eins og hann hefði getað lesið í plöggum í utanríkisráðuneytinu, að þeir vilja það ekki. Og hæstv. ráðherra þarf ekki að taka orð mín trúanleg fyrir því. Hann þarf ekki annað en bara fylgjast með Alþingi Íslendinga eins og við hinir gerum. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefði til dæmis bara lesið plöggin sem koma frá Vestnorræna ráðinu sér hann allt annað. Hér var í gær dreift frásögn af þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins þar sem meðal annars var rætt um fríverslun við Grænland og þar var ein niðurstaða einfaldlega sú að Grænlendingar væru á móti því að ganga inn í Hoyvíkursamninginn, þeir vildu tvíhliða samning sem er alveg sama niðurstaða og ég komst að og skildi eftir í þessu ráðuneyti. Hæstv. ráðherra er að óperera í löngu liðnum tíma.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir þau svið sem hæstv. ráðherra ætlaði sér að gera að sínum áherslumálum og það kemur í ljós í skýrslu hans og ræðu að þar hefur ekkert gerst. Það kemur í ljós að forsætisráðherra metur það með þeim hætti að hann er búinn að taka af honum forræði í norðurslóðunum og sömuleiðis EES. Og í ljósi þess hvernig þessi verk eru skil ég mætavel að Vestnorræna ráðið hefur ákveðið að móta sérstaka stefnu fyrir norðurslóðir, eins og kom fram í ársskýrslu þess. Ég skil það mætavel. Ef þingmenn okkar í Vestnorræna ráðinu komast að þeirri niðurstöðu að hæstv. ráðherra vinni ekki verkin sín skil ég það mætavel. Ég tók því illa gagnvart hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og ætla að nota þetta tækifæri til að biðja hana afsökunar á ummælum mínum vegna þess að ég skil núna hvað lá að baki. Hún sá að það var ekkert að gerast.

Að lokum, eitt mál liggur hér eftir sem ég spyr hæstv. utanríkisráðherra um. Í gær sagði hann að það væri hneisa ef erlent veldi eins og Evrópusambandið tæki ekki mark á því þegar hann segði að bréf hans til Brussel jafngilti slitum á samningi. Hálftíma síðar kom frétt um það að blaðafulltrúi ESB sagði nákvæmlega þetta. Þá spyr ég: Hvernig ætlar hæstv. utanríkisráðherra að bregðast við? Ætlar hann að láta Ísland (Forseti hringir.) liggja eins og tusku sem ekkert mark er tekið á eða (Forseti hringir.) á það að verða niðurstaðan af þessum undarlega leiðangri síðustu viku að meira að segja blaðafulltrúi ESB taki (Forseti hringir.) ekki mark á hæstv. utanríkisráðherra?