144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[11:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka svörin. Það kemur náttúrlega fram að þessir fundir áttu sér stað í fyrri tíð. Ég hef tekið eftir því að núverandi utanríkisráðherra hefur farið til Kína og það bárust engar fréttir af umræðum um mannréttindamál sem áttu sér stað á þeim fundi.

Nú er hæstv. menntamálaráðherra á leið til Kína og við vitum í raun ekki hvað hann er að fara að gera þar, ekki hefur verið hægt að fá svör við því af hverju hann er að fara í sínu embætti þangað og að sjálfsögðu er ekkert samráð haft við þingið frekar en fyrri daginn, við hv. utanríkismálanefnd. Þar af leiðandi er engin leið að koma skilaboðum til hæstv. ráðherra.

Ég man þá tíð fyrir langa löngu þegar þáverandi ráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, fór til Kína og olli töluverðum usla. Hann tók upp málefni Tíbets á þeim fundi og því var ekki vel tekið meðal kollega hans í Kína á þeim tíma. Það var einmitt af því að grasrótarsamtök settu sig í samband við ráðherrann og hann stóð sig afskaplega vel að því leytinu til að hann bað aðstoðarmann sinn að funda með samtökunum til að fá upplýsingar til þess að geta farið upplýstur á fund. Ég hef ekki orðið vör við neitt slíkt samráð, hvorki við grasrót né mannréttindasamtök sem vinna á sviði mannréttinda. Ég veit ekki hvernig það hefur verið í tíð hv. þingmanns þegar hann var í utanríkisráðuneytinu. Var eitthvert vinnulag, af því að ég hef ekki orðið vör við það hjá núverandi ríkisstjórn, á þá vegu að reynt væri að setja sig í samband við mannréttindasamtök sem störfuðu í mismunandi löndum sem við erum í samstarfi við?