144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson verður að gera sér grein fyrir því að ég er í töluvert öðru hlutverki en hann. Hv. þingmaður er partur af stjórnarliði en samkvæmt venjuhelguðum stjórnskipulegum leikreglum, svo við notum aftur það orð, er mitt hlutverk að veita honum, eða kannski miklu frekar þeim manni sem þarna situr, aðhald. Það er mitt hlutverk að rifja upp hvernig hæstv. utanríkisráðherra hugðist framfylgja stefnu sinni og knýja á um að það sé gert. Það þarf ekki að þýða að ég sé ósammála stefnunni heldur að mér finnist henni kannski ekki nægilega framfylgt. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að í áranna rás hefur verið mikill óvilji af Japans hálfu til þess að gera fríverslunarsamninga. Nú er það breytt.

Fyrir tveimur árum þegar, þremur árum má segja, þegar Shinzo Abe varð forsætisráðherra, og hann hefur fengið endurnýjað umboð, setti hann fram sína frægu stefnu um örvarnar þrjár og undir þriðju örinni var einmitt lögð gríðarleg áhersla á að auka fríverslun. Þar var sagt að í dag hefði Japan fríverslun sem tæki yfir 17 eða 18% af fríverslun þeirra við útlönd og þeir vildu auka það í 80%. Það sem hentaði okkur sérstaklega var að þeir lögðu áherslu á að gera það einkum við ríki sem byggju að sterkum auðlindum. Það sem á móti kemur hins vegar, og er neikvætt og þýðir að hæstv. ráðherra þarf að stappa niður fæti, er sú sérkennilega staða sem ég gat um í ræðu minni að á meðan við greiðum toll af að því er ég tel 75% af öllum útflutningi okkar, öllum fiskinum t.d., greiðir Japan sennilega innflutningstolla af 2–3%. Þetta reifa ég mjög í þingsályktunartillögu minni. Það er því ekki sami nauður sem rekur Japana til þess eins og okkur, en þeir hafa líka farið á fjörur við okkur í öryggismálum vegna veru okkar í NATO, þar höfum við vogarafl.

Herra forseti. Síðast en ekki síst er á (Forseti hringir.) næsta ári er stórafmæli (Forseti hringir.) í stjórnmálatengslum Íslands og Japans. Ég verð að segja að ef hæstv. utanríkisráðherra nær þá (Forseti hringir.) ekki að reka þetta heim til réttar verð ég illa svikinn.