144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir svarið. Ég held að ef við sleppum öllum ýfingum í þessum efnum hljótum við að geta verið sammála um að það er hagsmunamál Íslands að efla viðskipti og önnur tengsl við Japan, enda er, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, um að ræða mjög öflugt ríki í efnahagslegu tilliti. Möguleikar á samstarfi á öðrum sviðum eru líka áhugaverðir, þrátt fyrir að Japan sé fjarlægt okkur eru engu að síður snertifletir sem við eigum að vinna með.

Ég verð líka að taka undir það sem hv. þingmaður sagði, og vísa þá til ræðu hv. þingmanns, að æskilegt er að við reynum eftir föngum að efla fríverslunarnet okkar. Auðvitað fer mikið af þeirri vinnu fram á vettvangi EFTA og mikilvægt að stuðlað sé vel að því. En ég held að við eigum líka að vinna að þeim verkefnum á tvíhliða forsendum, eins og gert hefur verið og Kína er nýjasta dæmið um. Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af stöðu mannréttindamála í Kína og stjórnarfari þar og raunverulega ákveðnum þáttum utanríkisstefnu Kína, en engu að síður held ég að það sé best til þess fallið að bæta samskiptin og hafa jákvæð áhrif að eiga sem mest viðskipti og samskipti við það land.

Sama á við um önnur lönd sem virðast fjarlæg okkur en við getum átt mikla möguleika á að eiga samskipti við. Ég tel, og þar kannski að einhverju leyti greinir okkur hv. þingmann á, að við eigum að gera það á tvíhliða forsendum í auknum mæli (Forseti hringir.) og nýta okkur þannig að við höfum samningsfrelsi sjálf á sviði (Forseti hringir.) fríverslunarsamninga út fyrir Evrópu.