144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög glöggt og málefnalegt innlegg. Svo lengi sem við erum utan Evrópusambandsins er ég ekki ósammála því viðhorfi sem hv. þingmaður hefur til tvíhliða samninga. Ég held að við höfum töluverða möguleika til að skapa okkur færi þar. Við höfum gert það.

Ég ætla að rifja upp einn merkan samning sem byrjaði sem tvíhliða samningur upphaflega, samningurinn við Kanada sem miklar vonir voru bundnar við en hefur kannski ekki reynst sem skyldi. Við erum enn að bíða eftir því að hæstv. ráðherra reki breytingar á þeim samningi í gegnum EFTA því að þær eru mjög mikilvægar fyrir okkur. Hvernig byrjaði hann? Hann byrjaði í samskiptum utanríkismálanefndar Alþingis og Kanada. Af hverju? Af því að það voru Vestur-Íslendingar sem á þeim tíma áttu þar sæti, reyndar úr Íhaldsflokknum í Kanada en þeir voru ekki verri fyrir það. Það var byrjunin á þessu. Þeir sem drógu lappirnar mjög lengi voru Norðmenn, út af norskum skipasmíðaiðnaði. Það vorum við sem rákum þetta mál að öllu leyti, þingmenn innan EFTA-nefndar.

Annað sem varðar Japan og okkur er auðvitað sú staðreynd að við erum lítið ríki og við þurfum að spila vel úr okkar kortum. Það eru spenna og vaxandi viðsjár við Austur-Kínahaf og um það svæði allt millum stórvelda. Það vitum við alveg. Kína á til dæmis í landamæradeilum við hvert einasta ríki sem liggur þar að hafi. Japanir ugga um sinn hag. Það er í okkar þágu, og það hvernig við viljum stilla okkar kortum fram á við gagnvart heiminum, þegar við höfum gert fríverslunarsamning við Kína er það pólitískt mikilvægi sem í sjálfu sér felst í því að gera það líka við Japan.