144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst að NATO, Úkraínu, Rússlandi og þess háttar. Það er áhugavert fyrir okkur í þeirri umræðu að huga að því hvernig þær nágrannaþjóðir okkar sem starfa á grundvelli yfirlýsts hlutleysis taka á þessu. Afleiðing þeirra atburða sem átt hafa sér stað í Úkraínu og annars staðar á þessu svæði hafa gert það að verkum að bæði Svíar og Finnar, sem eru frá fornu fari hlutlaus ríki, hafa eflt eigin varnir, þær hafa þá í raun eflt herafla sinn og viðbúnað herafla síns. Þær hafa aukið samstarf við NATO og í þriðja lagi hefur í báðum þessum löndum verið vaxandi umræða um að þessar þjóðir gerist aðilar að NATO. Ég hygg að fyrir þær báðar yrði slíkt skref mjög stórt tilfinningalega séð og jafnvel erfitt vegna rótgróinnar hlutleysisstefnu. En á hinn bóginn hefur þessi atburðarás í veruleikanum leitt til þess að þau hafa fært sig mun þéttar að NATO í öllum sínum viðbúnaði og undirbúningi.

Varðandi flóttamannavandann. Já, við getum vissulega lagt meira af mörkum. Ég held að fjölgun þeirra flóttamanna sem við veitum viðtöku væri fyrst og fremst táknræn aðgerð. Ég ætla ekki að útiloka að menn geri það, en það væri fyrst og fremst táknræn aðgerð vegna þess að um er að ræða milljónir flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum þeim svæðum. Það er ljóst að inntaka fleiri flóttamanna til Íslands litlu mundi breyta í lausn þess vanda. Ég held að mestu máli skipti að styðja aðstoð við flóttamenn á nærsvæðunum og þar getum við vissulega (Forseti hringir.) lagt meira af mörkum.