144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi Bandaríkin þá taldi ég að ég væri að ljá því máli mesta áherslu með því að enda ræðu mína á því, láta það verða mín lokaorð að við þyrftum að efla samstarfið við Bandaríkin að þessu leyti. Ég held að um það sé ekki ágreiningur milli okkar hv. þingmanns, þannig að það er ástæðulaust að eyða meiri tíma í það.

Varðandi EES-samninginn þá stöndum við frammi fyrir tveimur hlutum sem athygli hefur verið vakin á. Annars vegar hefur myndast það sem kallað er innleiðingarhalli eða -hali, það fer eftir því hvernig menn líta á hlutina. Það birtist meðal annars í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA og málaferlum fyrir EFTA-dómstólnum. Þar er um að ræða að við höfum ekki í nægilega miklum mæli uppfyllt samningsskuldbindingar okkar, ekki af því að við séum á móti málunum heldur einfaldlega vegna þess að sá tími sem við höfum tekið okkur til að innleiða þær er of langur. Við höfum ekki fylgt frestum sem okkur eru settir í því sambandi.

Eins og hv. þingmaður veit þá höfum við gert nokkurt átak í utanríkismálanefnd til að stytta þann hala sem að okkur snýr en í mörgum tilvikum er um að ræða, hvað eigum við að segja, skort á mannafla og hugsanlega forgangsröðun í einstökum ráðuneytum þar sem mál hafa ekki fengið nægilega hraðan framgang, sem lýtur bæði að reglugerðarsamningu og frumvarpssmíð. Fyrir því eru ákveðnar ástæður. Þetta er einn hluturinn og hann er praktískur og á honum er tiltölulega einfalt að taka, hygg ég.

Hitt er aftur mikilvægara, sem hv. þingmaður nefndi líka, að við þurfum að setja meiri kraft í það af okkar hálfu, (Forseti hringir.) og eftir atvikum meiri peninga og mannafla, að fylgjast betur með vinnslu mála á fyrri stigum og nýta okkur þá (Forseti hringir.) möguleika til að hafa áhrif í því sambandi.