144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við í utanríkismálanefnd erum vörslumenn hagsmuna almennings að því marki að við eigum að beita framkvæmdarvaldið aðhaldi. Ég klaga ekkert upp á hv. þingmann í þeim efnum, hann hefur tekið, að því er varðar okkar nefnd og Alþingi, EES-málin mjög föstum tökum, raunar stundum of föstum tökum, að manni finnst.

En það var nú kannski ekki það sem ég átti við. Ég er ekkert að tapa svefni yfir innleiðingarhallanum, hann á sér ýmsar skýringar. Ég var einkum að hugsa um það sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu, um að koma fyrr að málunum, því það er í flestum en þó ekki öllum tilvikum þar sem við getum hugsanlega komið í veg fyrir einhvers konar skavanka sem gætu reynst okkur dýrir, og það eru dæmi um að þeir hafa reynst okkur dýrir.

Hæstv. utanríkisráðherra fór næsta heiðarlega yfir stöðuna í þeim málum. Hann hélt að það væri kannski einn maður til viðbótar að fara úr ráðuneytum til sendiráðsins til að huga að því málasviði. Þegar ég steig fyrst í ríkisstjórn 1993 eða ári síðar þá var einn maður frá hverju ráðuneyti, stundum deildu þeir mönnum. Þetta er mikilvægt, þetta kostar peninga. Þetta hefur hæstv. ráðherra rakið mjög rækilega hér í ræðu, enginn þó betur en hæstv. forseti Alþingis Einar K. Guðfinnsson sem fékk samþykkta ályktun.

Hæstv. utanríkisráðherra, bæði sem stjórnarandstöðuþingmaður og sem ráðherra, hefur reifað þessa nauðsyn. Hann hefur meira að segja nefnt tölur hér. Eins og við munum þá rifu hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Ásmundur Einar Daðason úr fjárlögum peningana sem áttu að fara í þetta þannig að hann stendur eftir slyppur og snauður, virðist ekki hafa mikinn áhuga á því, ekki skýra yfirsýn alla vega. Er þá ekki að þeim punkti komið að Alþingi, í gegnum utanríkismálanefnd, þurfi að skoða þessa stöðu og eftir atvikum að leggja fram ábendingar og leiðbeiningar hvernig úr megi ráða? Það gæti reynst liðsinni fyrir hæstv. ráðherra sem, eins og okkur er kunnugt um, eyðir öllum sínum kröftum í allt annað.