144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[13:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að nefna það sem hv. þm. Óttarr Proppé kom inn á í ræðu sinni, að að mörgu leyti er nokkuð víðtæk samstaða um ákveðna meginþætti í utanríkisstefnu Íslands. Það er auðvitað jákvætt. Þannig hefur það ekki alltaf verið, en við getum sagt að síðustu árin hefur verið til þess að gera friður um marga meginþætti í utanríkisstefnunni. Það er auðvitað vel, vegna þess að það þýðir að í þeim málum þar sem samstaða er allbreið verða minni sviptingar á stefnumörkuninni, það verður meiri samfella og þar af leiðandi minni röskun í því sambandi. Þeir meginþættir sem hv. þingmaður nefndi, mannréttindamál, umhverfismál og þess háttar eru þættir sem við tökum öll undir þó að við höfum hugsanlega frá einum tíma til annars mismunandi sjónarmið hvernig við tökumst á við einstök viðfangsefni, þá er held ég meginstefnan nokkuð samþætt.

Einnig má nefna að þrátt fyrir átök fyrri ára og áratuga um stöðu okkar í NATO og varnarsamstarfið þá hafa ekki átt sér stað veruleg átök núna í 25 ár. Það heyrast auðvitað sjónarmið, sérstaklega úr röðum okkar ágætu kollega úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem eru á annan veg. En þetta hefur hins vegar ekki verið mikið umdeilt efni svo neinu nemi á síðustu árum.

Ég ætlaði hins vegar að nefna það varðandi flóttamannamálin að allt sem hv. þingmaður nefnir í því sambandi um efnahagslegar orsakir flóttafólks eða einræðisstjórnir og annað þess háttar er auðvitað rétt og veldur auknum (Forseti hringir.) flóttamannastraumi. En sprengingin sem við höfum orðið vitni að í kringum Miðjarðarhafið að undanförnu stafar hins vegar (Forseti hringir.) af stríðsátökum þar sem ekki einstaklingar heldur hundruð (Forseti hringir.) þúsunda og jafnvel milljónir eru beinlínis að forða lífi sínu með því að flýja heimalönd sín.