144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það kann vel að vera að á þeim leikvelli sem Atlantshafsbandalagið byggir á, sem er þessi gamaldags leikvöllur, getum við sagt, stríðsátaka eins og við höfum þekkt það á 20. öldinni, veiti þessi grein ákveðinn fælingarmátt gagnvart hefðbundnum ríkjahernaði. En ég kýs að horfa á þau mál út frá dálítið öðru sjónarhorni, ég er gagnrýnin á forsendur vettvangsins sjálfs, leikvallarins sjálfs. Vissulega geri ég ekki lítið úr því að ríkisstjórnir þessara ríkja líti á það sem örygisatriði að vera innan hernaðarbandalags, við höfum séð það. Ég er hins vegar mjög vantrúuð á að þetta hernaðarbandalag gegni því hlutverki í raun að skapa friðvænlegri heim. Ég benti áðan á þann tvískinnung sem mér finnst vera í því að horfa á stærstu vopnasala Vesturlanda koma saman í Atlantshafsbandalaginu, sem eru að dæla vopnum inn á önnur svæði í heiminum. Hvar er verið að nota þau vopn? Jú, það er verið að skjóta niður sárasaklausa túrista á safni á Túnis bara í gær, hræðilegir glæpir eru framdir á hverjum degi. Við ættum að velta því fyrir okkur, undirstöðum hernaðarvélarinnar sem ég tel Atlantshafsbandalagið vera hluta af, því að ég tel það í raun vera varnarviðbrögð við mjög sjúku ástandi.