144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, margt má betur fara í heimi hér. Þegar við ræðum þessi mál skulum við velta fyrir okkur smáríki á landamærum stórveldis á borð við Rússland, sem í dag rekur harðari og sumir mundu segja árásargjarnari stefnu en það gerði fyrir örfáum árum, og hvort mundu menn svara beinni ásælni slíks ríkis, jafnvel hernaði af þess hálfu, með því að koma til þess og segja: Heyrðu, nei, ég er nú ekki alveg sátt við forsendurnar sko, við erum að ræða þetta á röngum grundvelli. Það er kannski sá veruleiki sem menn standa frammi fyrir í Eystrasaltslöndunum, að þau álíta að veran í Atlantshafsbandalaginu og eftir atvikum aukin viðvera herafla af hálfu Atlantshafsbandalagsins, viðbragðsáætlanir sem gera ráð fyrir að þeim sé komið til hjálpar ef á þau yrði ráðist, að það séu raunveruleg viðbrögð við raunverulegri hættu. Þannig hefur staða Atlantshafsbandalagsins verið frá upphafi. Þótt aðstæður hafi auðvitað breyst með ýmsum hætti í áranna rás hefur þetta verið hið gegnumgangandi viðhorf og í raun má segja að 5. gr. sáttmálans sé kjarni þess samstarfs sem þar er um að ræða. Auðvitað er margur tvískinnungurinn í heiminum, til að mynda eru hinir friðelskandi Svíar stórir vopnaútflytjendur og svo má lengi telja.

Sem viðbrögð við viðsjárverðri stöðu og beinum ógnunum held ég að Vesturlönd (Forseti hringir.) hafi ekki meira hald en í 5. gr. NATO-sáttmálans.