144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að við hv. þingmaður verðum seint sammála um þessi mál því að ég nefndi áðan og gæti nefnt mörg dæmi þar sem íhlutun Atlantshafsbandalagsins hefur ekki skilað betra ástandi heldur verra ástandi. Ég hlýt að setja spurningarmerki við það þegar vinnuaðferðir bandalagsins skila jafn litlum árangri og raun ber vitni í þessum viðsjárverða heimi. Þá segi ég: Bíddu, hljóta ekki að vera aðrar aðferðir sem virka?

Það hafa verið gerðar rannsóknar á því hvernig samskipti fólks í fjölbýlishúsum ganga fyrir sig. Þetta er áhugavert fyrir konu sem hefur búið í mörgum fjölbýlishúsum um ævina. Rannsóknir sýna að margir óttast nágranna sína mjög þar til þeir kynnast þeim og ræða við þá. Aukin samskipti leiða því oft til betri líðanar allra sem í fjölbýlishúsinu búa. Nú ætla ég ekki að segja að það eigi endilega við og ég er ekki absolútisti að því leyti að það getur verið ástæða til þess að bregðast við. Að sjálfsögðu getur verið ástæða til að bregðast við árásum annarra ríkja, ég er ekki absolútisti, en ég set risavaxið spurningarmerki við vinnuaðferðir Atlantshafsbandalagsins sem sjaldnast skila því aukna lýðræði og þeim aukna friði sem þeim er ætlað að gera. Það veit ég að hv. þingmaður er mér alveg sammála um.