144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort Eistar, Lettar og Litháar hafi mikinn áhuga á því að kynnast nágrönnum sínum mikið betur en þeir þekkja þá nú þegar. Það er athugasemd sem hv. þingmaður þarf ekki að kommentera neitt á. Mér eins og hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar, Birgi Ármannssyni, leikur hugur á að heyra aðeins dýpra í viðhorf hv. þingmanns gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Ég fer ekki í neinar grafgötur með afstöðu þingmannsins til þess, en er það ekki rétt skilið hjá mér að áður en Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill ganga úr Atlantshafsbandalaginu vilja þeir spyrja þjóðina? Ég minnist þess að ágætur félagi minn í þessum sölum, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að það eigi að vera þjóðaratkvæði. Er það ekki alveg klárt að jafnvel þótt hv. þingmaður kynni að verða forsætisráðherra fyrr en nokkurn varir muni hún ekki láta það verða sitt fyrsta verk að ganga úr NATO án þess að spyrja þjóðina? Þetta var spurningin.

Í öðru lagi vildi ég aðeins ræða við hana um afstöðu hennar til framkvæmdar á Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Eins og við munum kynnti ríkisstjórnin í fjölmiðlum 11. mars 2014 nýja Evrópustefnu. Samkvæmt henni var það áætlunin að Ísland kæmi fyrr að stefnumótun löggjafar sem mundi þýða að þá þyrfti frekari mannafla í Brussel. Í öðru lagi átti að búa til samráðshópa atvinnulífs og utanríkisráðuneytisins til að greina tækifæri og í fjórða lagi átti að efla samstarf Noregs og Liechtensteins. Ég gleymdi að vísu einu, það átti líka að leggja fram mat á samningnum á 20 ára afmælinu, það var í fyrra. Ekkert af því hefur gerst svo ég viti, maður hef ekki heyrt af neinu, þetta var minni háttar utanríkismál og aldrei kynnt þingi eða utanríkisnefnd. En telur ekki hv. þingmaður, sem á sæti í utanríkismálanefnd, að við þurfum að taka þetta upp og ganga eftir því í nefndinni hvernig stendur með (Forseti hringir.) framkvæmd þessarar Evrópustefnu sem virðist hvergi hafa orðið til nema í Stjórnarráðinu og aldrei komist út fyrir það?