144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:38]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu í dag ætla ég mér að ræða sérstaklega um alþjóða- og öryggismál og heyrist ég vera á svipuðum nótum og hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar. Í skýrslu hæstv. ráðherra kennir margra grasa og ég ætla að tæpa á örfáum atriðum, auk þess mun ég fara yfir þá umræðu sem átti sér stað á þingmannaráðstefnu um utanríkis- og öryggisstefnu Evrópusambandsins sem haldin var í Ríga í Lettlandi í byrjun mars. Þá ráðstefnu sat ég ásamt þeim hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Óttari Proppé.

Það má með sanni segja að veður séu válynd um þessar mundir en málefni Úkraínu og breytt öryggislandslag í Evrópu voru ofarlega á baugi á þingmannaráðstefnunni, ástandið við Miðjarðarhafið og uppgangur hryðjuverkasamtaka. Hvað Úkraínu varðar og samskipti við Rússland lagði til dæmis Federica Mogherini, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, áherslu á að Evrópa sækist ekki eftir átökum við Rússland og að landið væri þrátt fyrir allt samstarfsaðili Evrópusambandsins á ýmsum sviðum alþjóðamála, til að mynda í kjarnorkuviðræðum við Íran.

Carl Bildt, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, var sérstakur gestur ráðstefnunnar. Hann sagði það alvarleg mistök að hafa ekki brugðist harðar við innrás Rússa í Georgíu í ágúst 2008. Vesturlönd hefðu vissulega mótmælt innrásinni en voru eftir sem áður tilbúin til samstarfs við Rússa ári síðar líkt og ekkert hefði í skorist. Rússnesk stjórnvöld kynnu því að hafa búist við vægari viðbrögðum Vesturlanda við innlimun Krímskaga og íhlutun í austanverðri Úkraínu en raunin varð.

Hinn svokallaði „óhefðbundni hernaður“ — ég hef ekki fundið betri þýðingu en það á orðinu „hybrid war“, herra forseti — setur menn í afar flókna stöðu gagnvart Rússum og mat á viðbrögðum Atlantshafsbandalagsins, en þess konar hernað hafa Rússar stundað í Úkraínu.

Hvaða fyrirbæri er þetta? Hver er skilgreiningin á þessari nýju tegund hernaðar?

Herra forseti. Ég ætla að gera tilraun til að útskýra það lítillega. Í slíkum hernaði er grafið undan stöðugleika ríkja með röð aðgerða sem geta meðal annars falið í sér netárásir á upplýsingainnviði, áróðursstríð á net- og samfélagsmiðlum, leynilegar hernaðaraðgerðir ómerktra hermanna og samstarf við sveitir glæpamanna sem eru vopnaðar af árásaraðila. Í óhefðbundnum hernaði er engin eiginleg víglína og reynir árásaraðili að láta átökin líkjast borgarastríði á yfirborðinu frekar en innrásarstríði. Hermenn árásaraðila eru ómerktir og blanda sér í hóp innlendra stjórnarandstæðinga jafnframt því sem haldið er fram að viðkomandi stjórnarandstæðingar séu ofsóttir. Bent hefur verið á að raunveruleg ógn stafi af því að óhefðbundnum hernaðaraðgerðum verði beitt gegn NATO-ríkjum, einkum Eystrasaltsríkjunum, þar sem stórir rússneskumælandi minni hlutar búa. Í 5. gr. Atlantshafssáttmálans er kveðið á um að árás á eitt NATO-ríki teljist árás á öll ríki Atlantshafsbandalagsins. Ísland er í NATO og því skiptir þessi umræða, um óhefðbundinn hernað og 5. gr. Atlantshafssáttmálans, okkur mjög miklu máli.

Umræðuefnið í dag er skýrsla utanríkisráðherra en þar sem ég hef kosið að fjalla um alþjóða- og öryggismál vil ég tala örlítið meira um umræðuna sem átti sér stað á þessari þingmannaráðstefnunni en hún var afar upplýsandi. Á fyrrgreindum fundi sagði einnig aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, Alexander Vershbow, að ekki væri ástæða til að endurskoða 5. gr. með tilliti til óhefðbundins hernaðar. Sameiginlegur skilningur bandalagsríkjanna á greininni væri hins vegar mikilvægur. Vershbow sagði að ef ráðist væri á NATO-ríki með óhefðbundnum hernaði yrði tekin ákvörðun um viðbrögð á grunni upplýsinga frá því ríki sem ráðist er gegn auk upplýsinga leyniþjónusta annarra bandalagsríkja. Þær raddir heyrðust á fundinum að beiting óhefðbundinna hernaðaraðgerða gæti gengið mjög hratt fyrir sig og því gæti tekið nokkurn tíma fyrir Atlantshafsráðið, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, að koma saman og virkja 5. gr. Á leiðtogafundi bandalagsins í september sl. í Wales snerist umræðan að mestu um hvernig bregðast ætti við breyttum öryggishorfum í Evrópu vegna aðgerða Rússa gagnvart Úkraínu og uppgangi öfgamanna í Sýrlandi, Írak og Norður-Afríku. Í kjölfar fundarins tilkynnti forsætisráðherra Íslands að íslensk stjórnvöld hygðust efla þátttöku sína og framlög í þágu eigin varna og til bandalagsins. Innlimun Rússa á Krímskaga og viðvarandi stuðningur þeirra við aðskilnaðarsinna í Úkraínu markar ákveðin vatnaskil í samskiptum Atlantshafsbandalagsins og Rússlands. Bandalagið stöðvaði í mars 2014 öll samstarfsverkefni og hernaðarlega samvinnu við Rússland. Enn þá er haldið opnum möguleika fyrir fundi á sendiherrastigi á vettvangi NATO-Rússlandsráðsins þó að ekki hafi verið boðaður fundur þar undanfarna mánuði. Því miður, herra forseti, er fátt sem bendir til þess að samskipti bandalagsins og Rússlands muni breytast til batnaðar á næstu missirum.

Rússar hafa verið vinaþjóð Íslendinga í áratugi og viðskiptin við Rússa eru Íslendingum afar mikilvæg. Mér þykir því sorglegt að svo sé komið fyrir okkur. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að leggja áherslu á að halda þessum góða vinskap og tengslum en ekki verður hjá því komist að þetta framferði Rússa gagnvart Úkraínumönnum muni hafa áhrif á þau tengsl.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu gagnvart vinum okkar í Úkraínu á að virða skuli lýðræðisleg réttindi og meginreglur og standa vörð um réttindi allra íbúa landsins. Mikilla úrbóta er þörf og því afar mikilvægt að alþjóðasamfélagið styðji Úkraínu í pólitísku, efnahagslegu og félagslegu tilliti í tvíhliða samskiptum sem og á vettvangi alþjóðlegra stofnana. Hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hefur lýst yfir pólitískum stuðningi Íslands við Úkraínu bæði á tvíhliða fundum og á alþjóðavettvangi, m.a. í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september og á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í desember. Þá hefur Ísland tekið þátt í alþjóðlegum þvingunaraðgerðum vegna deilunnar gegn Rússum. Þess má einnig geta að Íslendingar og Úkraínumenn hafa ákveðið að hefja samstarf á sviði jarðhitanýtingar og stofnunar um orkusparnað í Úkraínu. Verkefnið felst í að kortleggja tækifæri í virkjun jarðhita í landinu og hafa íslensk stjórnvöld veitt 8,5 millj. kr. til þess. Þetta verkefni tel ég afar jákvætt.

Eru líkur á að menn nái að stilla til friðar og komast að samkomulagi um hvernig málum skuli háttað í Úkraínu? Vonarglætan í myrkrinu nú er að samkomulag náðist á fundi forseta Úkraínu, Rússlands og Frakklands og kanslara Þýskalands í Minsk þann 12. febrúar sl. Samkomulagið felur meðal annars í sér vopnahlé sem virðist halda að mestu leyti enn þá þótt enn séu bardagar á ákveðnum svæðum. Með samkomulaginu var líka viðurkennt að heildarlausn kalli á að samin verði ný stjórnarskrá fyrir Úkraínu sem færi héruðum landsins aukin völd og auk þess fái héruðin Donetsk og Luhansk sérstöðu með lögum. Sú hugmynd er byggð á kröfu Rússa, en í skýrslu ráðherra kemur fram að líklega verði erfitt að ná pólitísku samkomulagi um þetta atriði á milli ólíkra fylkinga í Úkraínu. Í skýrslunni kemur einnig fram að í samkomulaginu frá 12. febrúar sé ekki útilokað beinum orðum að sú stjórnarskrárbreyting og heildarlausn sem nú er talað um leiði til sambandsríkis. Forseta Úkraínu virtist að loknum fundi í Minsk ekki hugnast þessi hugmynd um sambandsríki miðað við hvernig hann tjáði sig um það við fréttamenn. Þetta er enn í mikilli óvissu.

Áður en ég lýk umfjöllun minni um Úkraínu og Rússland langar mig til að draga fram einn punkt til viðbótar úr skýrslu ráðherra en hann varðar ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að átökin í Úkraínu hafi reynt mjög á samstarfið á vettvangi ÖSE en bæði Rússland og Úkraína eiga aðild að stofnuninni sem og flest ríki Evrópu, auk Bandaríkjanna og Kanada. Aðkoma ÖSE hefur verið mikilvæg til að stemma stigu við átökunum og í mars 2014, fyrir ári síðan, náðist samstaða meðal allra 57 aðildarríkja ÖSE um að setja á fót sérstakt eftirlitsverkefni í Úkraínu til að draga úr spennu þar og stuðla að friði. Íslendingar áttu fulltrúa í þessum hópi og hafa stutt verkefni ÖSE í Úkraínu með ríflega 80 þús. evra framlagi.

Tíminn mun leiða í ljós hver þróunin verður í Úkraínu og afleiðingar hennar en fullyrða má að ástandið sé óstöðugt. Stríðsógnin er raunveruleg í augum og hjörtum margra, sérstaklega íbúa fyrrverandi Sovétríkjanna og austantjaldslandanna.

Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, ISIS, eru önnur ógn sem steðjar nú víða að. Daglega heyrum við fréttir í fjölmiðlum af grimmdarverkum þeirra, grimmdarverkum sem eru ólýsanlega hræðileg. Þau þyrma engum, ekki einu sinni börnum. Þessi skelfilegu hryðjuverkasamtök stóðu í átökum í Írak árum saman en blönduðu sér fljótt í borgarastríðið í Sýrlandi sem hófst árið 2011 með uppreisn gegn stjórn Bashar al-Assad. Í byrjun árs 2014 óx ISIS fiskur um hrygg og gerði árásir innan Íraks og náði undir sig talsverðu landsvæði. Um mitt árið stofnuðu samtökin kalífadæmi undir heitinu Íslamska ríkið. Segja má að viðbrögð stjórnvalda í Írak við uppgangi ISIS hafi ekki verið nógu öflug en stefna fyrrverandi forsætisráðherra í Írak þótti ýta undir uppgang ISIS. Haider al-Abadi er nú við völd í Írak en hann tilheyrir sítamúslimum. Hann þykir hófsamur og hefur reynt að koma til móts við kröfur bæði súnníta og Kúrda.

Herra forseti. Ég fann viðtal á visir.is í gær við Magnús Þorkel Bernharðsson sem er okkar helsti sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda og starfar nú sem prófessor við Williams-háskóla í Bandaríkjunum. Við í utanríkismálanefnd vorum svo heppin fyrir ekki svo löngu síðan að fá Magnús á fund til okkar og fara yfir þessi mál. Það var einkar fróðlegt að hlusta á hann segja frá en í viðtali þessu frá 18. mars segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þegar samtökin komu fyrst fram á sjónarsviðið þekkti fólk ekki til þeirra og vissi ekki hvað þau stóðu nákvæmlega fyrir. Margir töldu þetta vera afl sem væri hægt að fylgja og það væri mögulega eitthvað aðlaðandi við þessi samtök.

Þessi myndbönd öll sem samtökin hafa birt, fréttir af því hvernig þeir hafa hagað sér á þessum slóðum og þetta hrottalega ofbeldi sem við höfum séð hefur hins vegar alls ekki leitt til þess að almennir íbúar í Miðausturlöndum horfi til þessara samtaka sem einhvers jákvæðs afls og afls frelsis og lýðræðis.

Ef Kúrdar fá alþjóðlegan stuðning og fleiri og stærri vopn frá alþjóðasamfélaginu í baráttu sinni gegn ISIS, þá get ég ímyndað mér að það komi til með að vera „status quo“ næstu mánuðina.“

Þetta segir Magnús í viðtalinu og svo fer hann í nánari útlistanir á stöðu Kúrda og framtíðarpælingum varðandi þá þjóð.

Staðan í þessum heimshluta er afar flókin. Alþjóðastofnanir hafa lagt sitt af mörkum til að koma á friði en það kemur til dæmis fram í skýrslu hæstv. ráðherra að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í september 2014 samþykkt ályktun varðandi erlenda vígamenn sem gengið hafi til liðs við ISIS og önnur hryðjuverkasamtök þeim tengd. Talið er að þeir séu nú um 13 þúsund talsins frá um 80 löndum, þar af 3 þúsund frá Evrópu. Í ályktuninni eru meðal annars ákvæði sem miða að því að hindra för þeirra á milli landa.

Bandaríkin hafa síðan í ágúst sl. stutt við Kúrda og írakska herinn með loftárásum á bækistöðvar ISIS í Írak. Árangur þeirra aðgerða hefur verið sá að stjórnvöld hafa náð stórum landsvæðum til sín á ný.

En hver er aðkoma Íslands að baráttunni við þessi stórhættulegu hryðjuverkasamtök?

Öll ríki Atlantshafsbandalagsins, og Ísland er þar innan borðs, Evrópusambandið og tíu arabaríki hafa lýst yfir stuðningi sínum við baráttuna gegn ISIS. Utanríkisráðherra Íslands sótti fyrsta fund ríkjanna í Brussel í desember sl. Þar tilkynnti ráðherra að Ísland mundi styðja við neyðar- og mannúðaraðstoð fyrir óbreytta borgara í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Í ársbyrjun kynntu Bandaríkjamenn tillögur að fyrirkomulagi samstarfs þeirra ríkja sem taka þátt í baráttunni gegn ISIS. Lagt var til að starfað yrði í fimm vinnuhópum sem fjölluðu um ólíka þætti, svo sem aðgerðir til að tryggja stöðugleika til framtíðar á svæðum sem hafa verið frelsuð undan vígaferlum ISIS og aðgerðir til að hamla för vígamanna sem hyggjast ganga til liðs við ISIS. Vinnuhóparnir fimm munu undirbúa aðgerðaáætlanir, samhæfa stuðning ríkjanna og kalla eftir framlögum þeirra, miðla upplýsingum og gera tillögur til stuðningsríkjanna. Í þeirri skýrslu sem nú er til umræðu kemur fram að þegar frekari upplýsingar liggi fyrir um verkefni vinnuhópanna verði metið hvort eða hvernig Ísland getur lagt lið verkefni þess vinnuhóps sem fjallar um að tryggja stöðugleika lið til framtíðar.

Hæstv. forseti. Tími minn er að renna út en að lokum langar mig bara að þakka fyrir þessa ágætu skýrslu. Mér þótti hún mjög upplýsandi og fræðandi en það má eflaust gagnrýna eitthvað og það verður þá bara tekið til nánari skoðunar og umræðu síðar.