144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ég tel að skýrslan sé prýðilega gerð. Því miður vantar ekkert í hana, en það vantar talsvert upp á að staðið hafi verið við þau fyrirheit sem hæstv. ríkisstjórn gaf í stóra málaflokka. Það er nú ekki efni minnar ræðu.

Við höfum rætt þessa skýrslu hér í dag og sömuleiðis hefur blandast inn í þá umræðu vegferð ríkisstjórnarinnar síðustu viku. Það var þó fyrst og fremst umræða sem var háð síðustu daga. Mig langar eigi að síður að fá fram álit hv. þingmanns á einu af megindeiluefnunum þar. Hv. þingmenn margir sem þá ræddu málin og reyndar fyrr í dag líka töldu að ríkisstjórnin hefði ekki haft neina heimild til að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka nema fyrir tilstilli Alþingis, þ.e. að Alþingi þyrfti að samþykkja sérstaka ályktun um það og sýnist vafalítið sitt hverjum eins og við höfum heyrt síðustu daga.

Árið 2011 lögðu tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins fram þingsályktunartillögu. Í greinargerð með henni segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga um að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka.“

Svo kemur þessi setning, sem er skrifuð af þeim þingmanni sem oft minnir okkur á að hún sé lærðasti lögfræðingur Framsóknarflokksins í þessum sölum, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Setningin er svona:

„Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka.“

Spurning mín einföld: Er hv. þingmaður sammála stallsystur sinni og bróður, hv. þingmönnum Vigdísi Hauksdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni, um að það sé bara Alþingi sem getur dregið umsóknina til baka?