144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. utanríkisráðherra var á sínum tíma sammála þessum orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Hann taldi það þá rétt, en þegar það hentaði honum, þ.e. í gærkvöldi, í lok síns vikugamla leiðangurs, var hann búinn að gera hug sinn upp á nýjan leik og taldi að þetta hefði verið rangt hjá sér á sínum tíma. Ég ætla ekkert að elta ólar við þetta gagnvart hv. þingmanni, ég vildi bara fá það fram hvort hún væri sammála þessu eða ekki. Ég get ekki sakað hana um að vera ósamkvæma sjálfri sér, hún sat ekki hér á þinginu þegar þetta var. En ég verð hins vegar að segja að við erum þá orðin ansi fá í þessum sölum sem stöndum vörðinn um lögfræðilegan orðstír hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.