144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:58]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál sem ég ætla að gera að umtalsefni næstu mínúturnar og drepa á ýmsu sem þar kemur fram og skýrslunni viðvíkur sem er mikilvægt að mínu mati. Ég ætla að byrja á að fjalla um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, sem er afar mikilvægt, ekki síst um þessar mundir vegna þeirra atburða sem hafa orðið í utanríkismálum með framgöngu Rússa með hinni ólöglegu innnlimun Krímskaga og átökunum í Austur-Úkraínu. Öflugt óformlegt samstarf er á milli utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem kennt er við NB8 eða Nordic Baltic 8 samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra. Eistlendingar fóru með formennsku árið 2014 sem færist árlega milli landanna og tóku Danir við um síðustu áramót, 2015. Samstarf NB8-ríkjanna hefur eflst verulega á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að Eistland, Lettland og Litháen endurheimtu sjálfstæði sitt. Líkt og í utanríkismálasamstarfi Norðurlanda hefur verið lögð áhersla á gagnsemi óformlegra og sveigjanlegra vinnubragða í samstarfinu við Eystrasaltsríkin, og samstarf NB8-ríkjanna nær til margra sviða og stofnana stjórnsýslu landanna.

Sem dæmi má nefna fór á árinu 2012 fram samstarf á fjölda ólíkra sviða, svo sem um orkumál, fjármál, viðskipti, netöryggi, almannavarnir, kjarnorkuöryggi, jafnrétti kynjanna og lýðræðisþróun. Í skýrslu utanríkisráðherra kemur fram að utanríkisráðherrar NB8-samstarfsins samþykktu til dæmis sameiginlega yfirlýsingu vegna fangelsunar eistnesks lögreglumanns sem var numinn á brott af rússneskum öryggissveitum innan landamæra Eistlands og hvöttu rússnesk stjórnvöld til að leysa hann úr haldi. Einnig funduðu ráðherrar NB8-ríkjanna og ráðherrar Póllands, Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands nú í mars þar sem rædd voru málefni Úkraínu og staða annarra ríkja í austurhluta Evrópu, hryðjuverkaógn og orkuöryggi í álfunni að því er fram kemur í skýrslunni. Ráðherrarnir fjölluðu einnig um uppgang ISIS-hryðjuverkasamtakanna og hvernig alþjóðasamfélagið gæti brugðist við voðaverkum þeirra.

Í skýrslu utanríkisráðherra kemur fram að hæstv. ráðherra hafi ítrekað að hvergi verði hvikað af Íslands hálfu frá þeim grundvallargildum sem höfð eru að leiðarljósi í utanríkisstefnu landsins, þ.e. virðingu fyrir alþjóðalögum, lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu. Þá ítrekaði ráðherrann samstöðu Íslands með Eystrasaltsríkjunum. Það er gott. Af samtölum sem ég hef átt við þingmenn frá Eystrasaltsríkjunum á vettvangi Norðurlandaráðs um málefni tengd því svæði veit ég að mikill ótti hefur grafið um sig hjá þessum nágrönnum okkar og vinum vegna þróunar mála í Úkraínu og þess ótrygga ástands sem það hefur skapað fyrir Eystrasaltsríkin og Evrópu alla. Því ber að fagna og hlúa áfram að hinu óformlega jafnt sem formlega samstarfi milli utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem gengur undir þessu ágæta nafni NB8, eins og áður segir, og leggja áherslu á mikilvægan þátt og frumkvæði Íslands í því samstarfi.

Virðulegi forseti. Nú vil ég víkja máli mínu að auðlinda- og umhverfismálum sem eru fyrirferðarmikil sem fyrr á vettvangi utanríkismála okkar Íslendinga. Ábyrg umgengni við auðlindir landsins er kjarni í stefnu núverandi ríkisstjórnar með áherslu á sjálfbæra nýtingu til lands og sjávar. Það er gríðarlega mikilvægt að gætt sé hagsmuna Íslands í hvívetna vegna verndar og nýtingar hafsins í kringum okkur sem er okkar helsta auðlind. Þar verður að horfa til hættumerkja eins og súrnunar sjávar og hlýnunar sjávar vegna loftslagsbreytinga sem gætu gjörbreytt aðstæðum hér við land. Einnig þarf að horfa til deilistofna í Norður-Atlantshafi samfara breytingum á lífríki sjávar og ekki síður staðbundinna fiskstofna við Íslandsstrendur. En samfara hlýnun loftslags eru og munu verða miklar breytingar í heimi hér og er skemmst að minnast norðurskautsins þar sem ísinn fer hraðminnkandi og við okkur blasir ný heimsmynd þegar siglingar hefjast um norðurpólinn. Lega Íslands hentar til dæmis afar vel og er afar mikilvæg fyrir alþjóðlega björgunarmiðstöð á norðurslóðum. Hér gæti verið alþjóðleg þyrlusveit og það ber að vinna mjög markvisst að framgöngu þess máls.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að meðal brýnustu úrlausnarefna alþjóðasamfélagsins sé að aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna nái að ljúka nýjum samningi á þessu ári sem fyrirhugað er að taki gildi árið 2020. Eins og fram hefur komið samþykktu aðildarríkin að gera lagalega bindandi framtíðarsamkomulag um loftslagsmál sem taki gildi árið 2020 og kæmi í stað Kyoto-bókunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda og stefnt er að undirritun samkomulags á ríkjaráðstefnu í París í desember nk. Meginmarkmiðið er að halda hækkun hitastigs á heimsvísu innan við 2°C. Ríki skulu setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og senda áætlanir sínar til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna á fyrri hluta þessa árs. Öll ríki þurfa að taka á sig skuldbindandi takmarkanir á losun en mismiklar eftir aðstæðum.

Ætlunin er að öll ríki setji sér markmið um losun samkvæmt hinu nýja samkomulagi sem á að gilda eftir 2020 og munar þar mest um ríki sem eru í hraðri framþróun og hafa hingað til ekki sett sér markmið og sömuleiðis nokkur stærstu iðnríkin. Samhliða viðræðum um nýtt samkomulag er einnig rætt um hvernig ganga megi lengra í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2020.

Virðulegi forseti. Ísland getur verið í lykilstöðu með því að vinna skipulega að vistvænum orkuskiptum þegar kemur að samgöngum hér á landi. Hér gæti verið hægt að framleiða nægt grænt eldsneyti fyrir bílaflota Íslendinga í framtíðinni. Ég tel að við Íslendingar eigum að útbúa heildstæða aðgerðaáætlun sem muni nýtast stjórnvöldum til að vinna áfram markvisst að vistvænum orkuskiptum í samgöngum hér á landi, að stefnt verði að því að skipt verði alfarið úr hefðbundnu jarðefnaeldsneyti og farið yfir í aðra orkugjafa fyrir bíla og önnur samgöngutæki og að ákveðinn tímarammi verði settur upp í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að drepa aðeins á stóran málaflokk sem fjallað er um í skýrslunni, þjóðaröryggismál Íslands. Þar kemur fram að þingmannanefnd sem starfaði á grundvelli þingsályktunar frá 2011 skilaði í febrúar 2014 tillögum sínum um mótun á þjóðaröryggisstefnu til utanríkisráðherra. Hér var um tímamót að ræða þar sem þetta var í fyrsta skipti frá lýðveldisstofnun þar sem tekið var markvisst skref í átt að heildstæðri stefnu um þjóðaröryggi. Í skýrslu utanríkisráðherra kemur fram að netöryggismál séu afar ofarlega á baugi þegar kemur að þjóðaröryggismálum. Við sjáum fyrir okkur og því má halda fram með góðum rökum að ef til átaka kæmi í heiminum í nánustu framtíð mundu einmitt net- og tölvuvarnir viðkomandi þjóða skipta afar miklu máli. Netöryggi er því brýnt þjóðaröryggismál fyrir okkur Íslendinga og eitt það allra mikilvægasta á okkar tímum. Það er alveg ljóst að við þurfum að hafa mjög mótaða og skýra stefnu í þessum málaflokki. Ég fagna því innilega þeim fregnum að tekist hafi samstarf með Norðmönnum á þessu sviði en þeir eru mjög framarlega í flokki netöryggismála.