144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Elínu Hirst fyrir fína ræðu þar sem víða var drepið við og sýnir að hún er hugsjónamanneskja á ýmsum sviðum. Mér gast sérstaklega vel að þeim kafla ræðu hennar sem fjallaði um loftslagsmál og ég hefði gjarnan sjálfur viljað getað haft tíma til að fara yfir þau í fyrri ræðu minni í dag.

Ég tek undir með henni varðandi mikilvægi þess að setja hér upp öryggismiðstöð og það var einmitt eitt af því sem varð mér að efni vonbrigða í ræðu minni. Ég tel að við svona kaflaskipti, tvö ár liðin af störfum ríkisstjórnarinnar eða kjörtímabilinu, þá eigi að minnsta kosti stjórnarandstaðan að fara yfir það og skoða við hvað hægt er að merkja í kladdann, hvað þeir eru búnir að gera. Og eitt af því sem mér fannst mjög miður er að það virðist ekkert vera að gerast í því máli, að minnsta kosti er ekki sagt frá því í skýrslunni nema hvað það er einn karl sem vinnur hjá Landhelgisgæslunni þar um. En ég vona að umræðan verði alla vega hæstv. ráðherra tilefni til þess að láta hendur standa fram úr ermum í þeim málaflokki.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að mér fannst hún taka á öllum helstu málaflokkum nema einum, og ég bið hana þá forláts ef það hefur skotist fram hjá mér, en það eru þróunarmálin. Mig langar til að fá afstöðu hv. þingmanns til þeirra. Ég, eins og hv. þingmaður, hef verið mjög ósáttur við hvernig ríkisstjórnin heldur á þeim. Ísland er eitt ríkasta landið sem um getur í dag, og það kom fram í síðustu viku að á næsta ári verðum við komin í landsframleiðslu fram yfir það sem við vorum 2007, sem var þó ár allra ára. Á sama tíma erum við þó enn að skera niður eða höldum sjó frá hinum upphaflega niðurskurði. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Hvað á land eins og Ísland að gera við þessar aðstæður, og bið hana að hugsa til fordæmis íhaldsstjórnarinnar í Bretlandi sem gaf í í kreppunni? Hvað finnst henni um þá fyrirætlan hæstv. ráðherra að ætla að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun?