144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:11]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og mér þykir virkilega vænt um falleg orð sem hann lét falla í minn garð. Það er greinilegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ágætisfréttanef, eins og við köllum það í þeim bransa, vegna þess að við höfum einmitt átt tal saman um þróunarmál, sem er sameiginlegt áhugamál okkar beggja. Við höfum komist að því þó að við stöndum ekki á sama stað í pólitík.

Ég hef svona ámálgað þá skoðun mína og get þá gert það skýrar í þessum ræðustóli að mér finnst að það sé siðferðileg skylda okkar Íslendinga að taka þátt í þróunarsamstarfi á þeim skala sem okkur sæmir sem einni af ríkustu þjóðum veraldar. Ég tel ekki að við eigum að vera eftirbátar annarra þjóða sem við berum okkur saman við í þeim efnum. Ég hef enn fremur hugsað það mjög vandlega hvernig hægt væri að hafa áhrif á þá stefnu hvað Ísland varðar. Ég á sæti í hv. utanríkismálanefnd þar sem ég mun reyna að láta gott af mér leiða til að þetta markmið mitt náist. Mér finnst þetta vera nokkuð sem þurfi í raun og veru ekki að vefjast fyrir landi og ríkri þjóð þar sem mikil velsæld ríkir eins og nú á þessum tímum.

Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og vil leggja áherslu á áhuga minn á þessu málefni.