144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:19]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur hv. þingmanni fyrir góðar spurningar.

Svo vildi til að á vettvangi Norðurlandaráðs, vettvangi þess flokkahóps sem við hv. þingmaður tilheyrum, fengum við að heimsækja netöryggismiðstöð Noregs skammt frá Lillehammer í fyrra. Þar rann kannski upp fyrir mér sem borgari í þessu landi og stjórnmálamaður hvað við þurfum að halda árvekni okkar varðandi netið og öryggið sem tengist því. Eins og fram kom á þeirri kynningu leggja Norðmenn gríðarlega áherslu á þau málefni og leggja til mikið fé og hafa orðið sér úti um mikla þekkingu á þessu sviði. Þeir vakta netöryggismálin í þeirri herstöð allan ársins hring, allan sólarhringinn, og veitir ekki af því að gerður er fjöldi tilrauna á hverjum einasta degi til að brjótast inn í mikilvæg tölvukerfi í Noregi í því skyni að stela verðmætum og upplýsingum eða einfaldlega til að valda skaða.

Eins og ég minntist á í ræðu minni áðan má halda því fram með mjög góðum rökum að ef til átaka kæmi í heiminum á næstunni mundu net- og tölvuvarnir þjóða skipta afskaplega miklu máli. En ég næ því miður ekki að svara þessu ítarlegar þótt ég mundi gjarnan vilja.