144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:32]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þessar spurningar. Varðandi Evrópuráðið og Rússa tel ég að Rússar — og flestir þeir sem ég þekki og hef talað við innan Evrópuráðsins voru sömu skoðunar og ég — þurfi að sýna mun meiri lit en þeir hafa gert hingað til varðandi Úkraínu. Þeir þurfi að sýna fram á að þeir séu tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að friður komist á í því landi. Búið er að gera samkomulag í Minsk varðandi Úkraínu, hvort það heldur á eftir að koma í ljós. Þeir hafa verið með mjög skýra afstöðu gagnvart Krímskaga sem þeir hafa ekki viljað hvika frá. Ef þetta er þeirra afstaða tel ég að Rússar eigi mjög lítið erindi inn í Evrópuráðið, sem er ráð sem hefur að gera með mannréttindi og lýðræði í aðildarríkjum.

Varðandi ISIS — staðan í Sýrlandi og Írak er vissulega mjög flókin. Hvort hægt er að líta á Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir þarna í grenndinni sem bandamenn í þessu, ég held að það sé svolítið rúm túlkun, við getum ekki gert það. Vissulega eru hins vegar margir aðilar að berjast gegn ISIS, Bandaríkjamenn þar á meðal og fleiri þjóðir sem eru á þessu svæði. Ég held að ekki sé hægt að líta þannig á að um sé að ræða bandamenn í þessu stríði að öðru leyti en því að þeir glíma við sameiginlegan óvin sem eru ISIS-samtökin.

Ætti að ganga lengra í þessari baráttu? Ég held að menn þurfi að leita allra leiða til að ganga lengra. Ég er ekki þar með að segja að menn eigi að fara með landher þarna inn en ég held að full ástæða sé til að skoða meðal annars fjármögnun ISIS-samtakanna, hvernig hægt er að skera á fjármögnun til þessara samtaka. Það er ljóst að þau fá fjármagn, ekki bara innan lands í Sýrlandi og Írak heldur líka frá aðilum í alþjóðasamfélaginu.