144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það væri gaman að fá frekari skýringar á því hvaða aðilar það eru sem hv. þingmaður er að tala um. Er hann að tala um að það sé Sádí-Arabía, sem í orði kveðnu að minnsta kosti er náinn bandamaður Bandaríkjanna, sem sé með þessum hætti að styðja ISIS sem Bandaríkjamenn líta eigi að síður á sem einn af sínum höfuðóvinum? Ef hv. þingmaður telur ástæðu til að ræða þá spurningu væri ég glaður af því að ég er fróðleiksfús.

Spurningin um það hvenær eigi að hleypa Rússum aftur inn í Evrópuráðið tengist því hvernig menn beita viðskiptaþvingunum. Þetta eru skyld mál. Eitt af því sem ég hef undrast í þessari umræðu, sem hefur komið upp um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, er þetta: Í ljósi þess að um er að ræða viðkvæmt tæki, sem getur slegið í báðar áttir, þá held ég að það sé alltaf umhendis að beita viðskiptaþvingunum nema menn séu búnir að skilgreina við hvaða aðstæður eigi að aflétta þeim. Alveg eins og ég teldi að það væri rétt hjá Evrópuráðinu, sem vísar Rússum frá tímabundið eða varanlega, að hafa það klárt og kvitt hvenær aðstæður hafa skapast þannig að hægt sé að leyfa þeim aftur þátttöku.

Hv. þingmaður segir, og tekur þá væntanlega mið af umhverfi sínu í Evrópuráðinu: Þegar þeir sýna lit. Ja, það er nú ansi loðið og teygjanlegt hugtak og erfitt að meta það. En á alþjóðavísu finnst mér í lagi að beita viðskiptaþvingunum þegar þjóðir brjóta það sem við köllum grundvallarlögmál. En ég hef spurt eftir því í utanríkismálanefnd, kannski hér í þinginu, ég held það, ég hef alla vega spurt hæstv. utanríkisráðherra — alveg eins og ég hef spurt utanríkisráðherra annarra þjóða og forustumenn annarra þjóða á þeim vettvangi þar sem ég sit fyrir Alþingi — um þetta hið sama. Og svörin eru mjög óljós. Það finnst mér vera dálítið óþægilegt og það veit enginn við hvaða aðstæður á að lyfta þeim. Er krafan sú að þeir fari út úr Krím, skili Krím? Er krafan sú að þeir sýni bara lit? Ég held að það sé svarið hjá flestum, en það er mjög erfitt að (Forseti hringir.) halda úti utanríkismálastefnu, hvað þá af hálfu stórra ríkja, ef það er viðmiðið, sem er ekki hægt að skilgreina.