144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:37]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Varðandi það hvort Sádí-Arabar eru að fjármagna ISIS — ég hef einfaldlega ekki hugmynd um það. Auðvitað hefur maður heyrt minnst á það ríki í fréttagreinum og öðru að utan, en hvort peningar koma til ISIS frá Sádí-Arabíu, það hef ég ekki hugmynd um frekar en nokkur annar í þessum sal. Þetta eru bara hugleiðingar sem ekki er einu sinni hægt að segja neitt um.

Varðandi viðskiptaþvinganir og Rússa hef ég reyndar verið þeirrar skoðunar að viðskiptaþvinganir séu ekki einu sinni rétta leiðin varðandi Rússa. Ég held að viðskiptaþvinganir hafi lítið bit þegar kemur að þjóð eins og Rússum, stórþjóð eins og sú þjóð er, enda hefur Pútín margsinnis sagt að ef menn vilji refsa Rússum á einhvern hátt séu viðskiptaþvinganir kannski ekki rétta leiðin. Ég held að það sé rétt hjá honum, ég held að menn þurfi að finna aðrar leiðir en viðskiptaþvinganir til þess að hafa mikil áhrif á afstöðu Pútíns til Úkraínu. Auðvitað er þetta mál sem nær aldir aftur í tímann og Rússar munu alltaf líta á Úkraínu sem hluta af sínu landi hvað sem hver segir. En þetta er sú leið sem Vesturlönd hafa kosið að fara.

Hvenær aðstæður eiga að skapast, hvenær hægt er að taka Rússa inn í Evrópuráðið að nýju — þar er ég sammála hv. þingmanni um að þetta er mjög afstætt, að það verði alltaf matskennt hverju sinni. Þú getur aldrei skrifað niður nákvæmlega hvaða þarf til, það er bara ekki hægt. Eðli málsins samkvæmt er það afstætt hvenær meiri hlutinn lítur þannig á að þessu skilyrði sé fullnægt.