144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá ítarlegu skýrslu sem hann hefur lagt fyrir þingið. Á tíu mínútum verður að sjálfsögðu ekki fjallað um alla þættina sem hún tekur á. Ég ætla að nefna örfáa.

Ég vil byrja á því að nefna Palestínu. Ég er ánægður með þær áherslur sem er að finna í skýrslunni og í afstöðu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar gagnvart Palestínu. Ég var ánægður með ræðu hæstv. ráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann fordæmdi framgöngu Ísraela. Ég gagnrýni að vísu orðalagið að tala um deiluaðila á þessum slóðum. Það voru engir deiluaðilar í Þýskalandi nasismans, það voru engir deiluaðilar í Suður-Afríku apartheid-stefnunnar og á þessum slóðum er hersetin þjóð og sú sem hersitur. En ég fagna því og tek undir með hæstv. ráðherra að það er gott að Palestína skuli nú vera búin að fá aðild að Alþjóðasakamáladómstólnum í Haag. Það gerðist núna í byrjun þessa árs og ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra hvað það snertir.

Það hafa ýmsir gagnrýnt skýrsluna vegna þess að þar hefði mátt fjalla ítarlegar um sum mál. Menn hafa nefnt hafréttarmál, ég nefni mannréttindamál, þau hefðu þurft að fá ítarlegri umfjöllun. Þess er getið að við erum eina þjóðin sem ekki er með fasta viðveru í Strassborg, háborg mannréttindanna í Evrópu. Sendiherra þar var kallaður heim árið 2009 í kjölfar hrunsins, en starfsemin þar hefur ekki verið endurreist og hefði ég talið að það væri löngu kominn tími til, ekki síst í ljósi þess hverjar áherslur ríkisstjórnarinnar eru á öðrum sviðum, og nefni ég þar hernaðarbandalagið NATO.

Í skýrslunni er fjallað allítarlega um NATO og um framgöngu Íslands innan bandalagsins, en þar hafa Íslendingar tekið undir með þeim sem vilja ganga lengst í að hervæða heiminn að nýju. Það er talað um í skýrslunni að tekist hafi að stöðva niðurskurð til varnarmála á fundi leiðtoganna í Wales í fyrrahaust. Það tókst að stöðva niðurskurð til varnarmála og tryggð hefur verið frekari uppbygging í hernaðarútgjöldum í NATO-ríkjunum á komandi tíð. Því er sérstaklega fagnað. Og Íslendingar heita því, eða ríkisstjórnin fyrir okkar hönd, að fjölga Íslendingum sem komi til með að starfa á vegum NATO. Því er fagnað að komið sé upp hraðliði sem menn lofuðu eða hótuðu, eftir því hvernig menn vilja líta á það, á hálfrar aldar afmæli NATO í Washington árið 1999 og er hluti af varasamri ráðagjörð sem ég hef margoft gert grein fyrir í þinginu.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur stundum talað um að ógnin í heiminum sé að færast okkur nær. Það er líka hægt að færa sjálfan sig nær ógninni. Þar horfi ég á framgöngu Íslands í Úkraínu sem hefur ekki látið sitja við það eitt að fylgja NATO að málum og vera þar sem herlaus þjóð tiltölulega fámál, því að það er aumasta hlutskipti sem hægt er að hugsa sér í heiminum að vera herlaus þjóð í hernaðarbandalagi, að samþykkja að senda annarra þjóða börn og ungmenni í stríð en standa fyrir utan alla slíka ábyrgð sjálf. Þar hefur hæstv. ráðherra ekki látið sitja við það eitt að fylgja NATO að málum heldur Evrópusambandinu líka, sem hefur róið þar undir öllum árum alveg frá því að lýðræðislega kjörnum forseta, Viktor Janukovitsj, var steypt af stóli í febrúarmánuði árið 2014. Þetta eru staðreyndir. Það var lýðræðislega kjörinn forseti sem var settur af með byltingu.

Formaður utanríkismálanefndar íslenska þingsins sagði hér áðan að það væri kominn langur tími frá því að landamærum hefði verið breytt í Evrópu undir byssukjafti, ég held að hann hafi orðað það þannig. Það er ekki svo óskaplega langt síðan, það er ekki alveg svo langt síðan vegna þess að á Krímskaganum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla árið 1991 þar sem 81% atkvæðisbærra manna tóku þátt og yfir 93% vildu sjálfstæðan Krímskaga. Og það voru mjög sterk öfl þar, lýðræðisleg öfl meðal fólksins sem vildu sameinast Rússlandi. Síðan gerist það í kosningum, eftir kosningar árið 1992, að þingið í Krím lýsir yfir sjálfstæði Krímskagans. Það átti bara eftir að staðfesta þetta síðar á árinu, í ágúst var það ráðgert, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá var hótað frá Kiev, frá Kænugarði stríði. Þetta hefur þáverandi forseti landsins staðfest í fjölmiðlum. Þarna var því lýðræðislegi viljinn og á hann hlusta vesturveldin aldrei. Í þessari skýrslu er gefið lítið fyrir þann lýðræðislega vilja, það er talað um landamæri öllum stundum. Það er nokkuð sem fer Íslendingum ekki vel. Við vorum fyrsta þjóðin til að samþykkja og viðurkenna Eystrasaltsríkin vegna þess að við bjuggum yfir reynslu nýlenduþjóðar sjálf og samþykktum í þjóðaratkvæðagreiðslu að gerast sjálfstætt ríki, sjálfstætt lýðveldi. Eða ætla menn að viðurkenna þetta samráð heimssamfélagsins um að sú ríkjaskipan sem nú er, alveg óháð vilja fólksins, haldist að eilífu? Þannig hefur verið troðið á Kúrdum, þeim bannað að tala tungumál sitt. Þannig var farið með Baska. Síðan erum við með siðaðar þjóðir eins og Breta sem leysa málin í almennum kosningum. En þarna þarf að horfa til, ég hvet íslensk stjórnvöld til þess, lýðræðislegs vilja á Krímskaga áður en menn fara að belgja sig mikið út.

Hvernig stendur á því að við heyrum engin mótmæli við því að stjórnin í Kiev undir handarjaðri NATO og vesturveldanna skrúfi fyrir greiðslur almannatrygginga á þeim svæðum sem eru undir valdi aðskilnaðarsinna? Þetta var líka gert í Palestínu, Ísraelar gerðu þetta, ísraleska stjórnin, og þetta er viðurstyggilegt. En það er ekki orð um þetta, það er ekki orð um þau mannréttindabrot. Ég vildi tala miklu, miklu meira um þennan þáttinn, um þetta land, m.a. Krímskagann sem Krúsjoff gaf Úkraínu árið 1954 og nú er litið á sem heilaga ritningu.

Við eigum líka að horfa í eigin barm, vesturveldin. Það eiga Bandaríkin að gera og það á NATO að gera og það á Ísland að gera áður en það fer fram eins og gert hefur verið.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég fara mörgum orðum um það sem segir hér um Alþjóðaviðskiptastofnunina og alþjóðasamningana sem verið er að gera. Það er bent réttilega á að framan af hafi þessir samningar verið vörusamningar, verið tollasamningar fyrst og fremst. En það er bent réttilega á það í skýrslunni að núna séu þeir farnir að snúast um þjónustu og farið sé að beita markaðsmekanisma. Hvað þýðir það, hvað þýðir það sem hér er verið að tala um? Það er verið að tala um að samkvæmt þessum samningum er verið að skuldbinda okkur, ekki aðeins til að lækka tolla eða leggja þá af, nei, það er verið að skuldbinda okkur til að markaðsvæða samfélög okkar, það er það sem verið er að gera. Síðan er vikið að því líka í skýrslunni hvernig við erum að framselja vald frá dómstólum til gerðardóma. Það er fjallað um það í skýrslunni en ekki á gagnrýninn hátt.

Einu leiðarljósin sem við fáum að sjá í skýrslunni um þetta nákvæmlega, hvað skyldi það vera? Það er hagur fyrirtækja. — Það er hagur fyrirtækja. — En ég spyr: Hvað með lýðræðið, hvað með fólkið, hvað með verkalýðshreyfinguna, hvað með almannasamtök sem hafa verið að mótmæla þessum leynilegu samningum sem hvað eftir annað hafa verið reyndir. Ég nefni maísamningana 1995–1998, ég nefni GATS-samningana sem strönduðu eftir að upplýst var um þá og núna TiSA, sem er farið að upplýsa um eftir að uppljóstrarar komust í regluverkið.

Ég hefði viljað ræða miklu, miklu nánar um öll þessi mál, (Forseti hringir.) en ég mun koma að einhverju í síðari ræðu minni á eftir.