144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sennilega bara svona tregur en það tók mig dálitla stund að átta mig á því hvað það var nákvæmlega sem hv. þingmaður vildi varðandi þetta. En hann hefur svarað báðum spurningunum sem ég varpaði til hans með ítarlegum hætti. En gæti hv. þingmaður skýrt aðeins betur út fyrir mér, vegna þess að hann er nú manna bestur til þess að hnoða saman kjarna máls í stuttar setningar og hefur tvær mínútur: Með hvaða hætti vill hann þá leiða þetta mál til lykta? Mér var það ekki algjörlega ljóst og þó tek ég skýrt fram að ég er einn af iðjusömustu lesendum heimasíðu hans þar sem hann skrifar reglulega pistla. En hvernig vill hann stilla til friðar og leiða saman fylkingar með þeim hætti að sambýli geti orðið án blóðsúthellinga?