144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[15:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna sem tekur til margra og ólíkra þátta er varða utanríkis- og alþjóðamál, og ég ætla að nota tíma minn hér til þess að stikla á nokkrum þeirra.

Um liðna helgi gekk djúp lægð yfir Ísland sem olli miklu tjóni á mannvirkjum. Á sama tíma hinum megin á hnettinum skall fellibylur á smáríkinu Vanúatú, kostaði fjölda fólks lífið og lagði innviði samfélagsins þar nálega í rúst. Vel flestar byggingar í þessu fátæka eyríki með rétt um 260 þús. íbúa skemmdust. Það sama má segja um vegi, orkukerfi og nánast allt það sem við teljum til grunnstoða samfélagsins. Örlög fólksins á Vanúatú ættu að vera okkur Íslendingum umhugsunarefni, ekki aðeins vegna þess að hér er um að ræða örríki, aðeins minna en okkar, heldur ekki síður vegna þess að sterk rök má færa fyrir því að hamfarir þessar séu afleiðingar loftslagsbreytinga þar sem stormar í þessum heimshluta eru bæði tíðari og sterkari en áður. Því hefur lengi verið spáð að eyríki í Kyrrahafinu verði fyrstu fórnarlömb hlýnunar andrúmsloftsins og sum þeirra muni jafnvel líða undir lok innan fárra ára. Þess vegna tel ég eðlilegt að fjalla aðeins um og rifja upp þessar hamfarir í umræðu um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra.

Íbúar Vanúatú hafa óskað eftir neyðaraðstoð frá alþjóðasamfélaginu og kallað eftir hjálp við að endurreisa samfélag sitt eftir þessar hörmungar. Og ég tel að hæstv. ríkisstjórn mundi gera vel í því að svara því kalli með fjárframlagi og vil beina því til hæstv. ráðherra að taka það til skoðunar og jafnvel, vegna þess að hæstv. ráðherra er ekki í salnum, til formanns hv. utanríkismálanefndar að þetta verði tekið til skoðunar í nefndinni.

En það eru fleiri en íbúar Vanúatús sem þurfa á aðstoð ríkari þjóða að halda. Eins og við ræddum í sérstakri umræðu um þróunarsamvinnu fyrr í vetur eru framlög Íslands til þróunarsamvinnu lág í samanburði við aðrar norrænar þjóðir. Árið 2014 var framlag Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu um 0,21% af vergum þjóðartekjum og áætlað er að hlutfallið verði það sama í ár. Ef þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á árunum 2013–2016 væri hins vegar fylgt ætti framlag Íslands á næsta ári að vera um 0,35%. Mér finnst dapurleg pólitísk skilaboð felast í því hve lítinn hluta af þjóðartekjum okkar hæstv. ríkisstjórn leggur í baráttuna gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum fólks í fátækustu ríkjum heims. Þau verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur verið að sinna, t.d. í Malaví, eru að mínu mati frábær, en það þarf að veita aukið fjármagn í þau. Þróunarsamvinna gengur út á að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og bætt lífskjör í fátækustu ríkjum heims er að mínu viti besta leiðin til að tryggja friðvænlegan heim til framtíðar.

Hæstv. forseti. Á sama tíma og hægt gengur að auka fjármagn til þróunaraðstoðar eru fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda að auka framlög til NATO og fjölga borgaralegum sérfræðingum í störfum hjá hernaðarbandalaginu. Það er að mínu mati kolröng forgangsröðun.

Þá langar mig í samhengi við NATO að víkja aðeins að Úkraínu, en stærsta viðfangsefni NATO um þessar mundir er einmitt stríðið í Úkraínu, stríð sem er einhver alvarlegasta ógnun við frið og öryggi í Evrópu sem við höfum horfst í augu við um langan tíma og gæti, ef illa verður á málum haldið, þróast yfir í stríð milli Rússlands og NATO og þá með mögulegri beitingu kjarnorkuvopna.

Jan Oberg hjá sænsku friðarrannsóknarstofnuninni TFF og einhver virtasti sérfræðingur samtímans á sviði friðarmála hefur fjallað ítarlega um Úkraínudeiluna og bent á leiðir til lausna. Hann bendir á að í dag sendi allir deiluaðilar til viðræðna karlmenn sem hafa bakgrunn sinn úr herjum, menn séu þjálfaðir og byggi heimsmynd sína á þeirri forsendu að vopnavald sé eðlilegt lokaúrræði í deilum. Enginn aðili við samningaborðið hefur reynslu og færni í málamiðlunum. Við þurfum sáttasemjara í svona deilum en ekki marskálka. Oberg bendir á einföld en mikilvæg skref til að byggja upp frið í Úkraínu í stað stríðsástands. Lausnir hans eru þessar: Hættum að reyna að draga Úkraínu inn í NATO. Leyfum Úkraínumönnum að ganga í Evrópusambandið eða hvert það viðskiptabandalag við Rússa sem þeir geta sjálfir komið sér saman um. Allir aðilar dragi vopnaðar sveitir sínar úr Austur-Úkraínu en í staðinn komi fjölmennt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna sem starfi í samvinnu við ÖSE. Þar standa spjótin vitaskuld sérstaklega á Rússum sem styðja ljóst og leynt við bakið á aðskilnaðarsinnum.

Þessu til viðbótar má benda á að glæný rannsókn friðarstofnunar Bandaríkjanna sýnir að meiri hluti Úkraínumanna vill hvorki halla sér nær Evrópusambandinu né Rússum. En það sem Jan Oberg leggur jafnframt til er að hafið verði friðarferli undir stjórn reyndra málamiðlara sem leiði til þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu þar sem valið verði á milli ólíkra útfærslna á framtíðarskipulagi allt frá einni ríkisheild yfir í sambandsríki. Stórfelld fjárhagsaðstoð fjármögnuð af Rússlandi og löndum Evrópusambandsins fari í að endurreisa hrynjandi efnahag Úkraínu. NATO flytji hersveitir sínar frá sex aðildarríkjum sínum í Austur-Evrópu og hverfi aftur til þess anda sem ríkti í tengslum við samkomulag NATO og Rússlands um gagnkvæm samskipti frá árinu 1997. Og síðast en ekki síst að við allt þetta ferli verði leitast við að hafa samráð við frjáls félagasamtök, einstaklinga og hreyfingar sem hafa friðsamlegar lausnir að leiðarljósi, ekki bara hauka og stríðsæsingamenn. Með þessar lausnir að markmiði ættum við að ná að koma á friði og afstýra stórstyrjöld.

Þessi grundvallarsjónarmið gilda vitaskuld einnig á öðrum átakasvæðum svo sem í Írak og Sýrlandi þar sem herfileg borgarastyrjöld geisar með ómældum þjáningum íbúanna sem og í Líbíu, sem nú er að liðast í sundur, ekki hvað síst vegna gríðarlega misráðinnar íhlutunar NATO sem fáir eða engir verja í dag.

Hæstv. forseti. Ísland er, og ég ætla rétt að vona verður, herlaust land. Ég vil því nota tækifærið í umræðu um skýrslu utanríkisráðherra til þess að hvetja hæstv. ráðherra til þess að kynna sér kenningar og málflutning sérfræðinga á sviði friðsamlegra málamiðlana, vegna þess að ég hef þá trú að hæstv. ráðherra sé í hjarta sínu friðarsinni og vilji leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að stuðla að friðvænlegum heimi, og tali fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi í stað þess að binda trúss sitt við hernaðarlausnir.