144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að mikil óveðursský eru á lofti og ástandið er mjög viðkvæmt. Öll viðleitni manna hlýtur að vera í þá átt að reyna að efla samtöl og samskipti með það fyrir augum að hægt sé að leysa ágreiningsmál með friðsamlegum hætti.

Ég á bágt með að sjá það fyrir mér og mér finnst það eiginlega ekki forsvaranlegt að segja að viðbragð við því ástandi sem nú er uppi eigi að vera það, eins og hér var nefnt, að NATO dragi t.d. sveitir frá þeim sex aðildarlöndum NATO sem eiga landamæri að Rússlandi. Eigum við að fara til Eystrasaltslandanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, þar sem menn eru beinlínis skelfingu lostnir yfir ógninni sem að þeim steðjar frá Rússlandi og segja: Við ætlum ekkert að hjálpa ykkur, sjáið þið, ef eitthvað kemur upp þá sendum við bara menn í viðræður. Ef rússneskir hermenn fara yfir landamærin eða eitthvað svoleiðis, þá sendum við menn til að reyna að tala þá til?

Því miður er staðan ekki þannig. Ástæðan fyrir því að herafli NATO er í auknum mæli til staðar t.d. í Eystrasaltslöndunum er sú að þau lönd hafa beðið um það vegna þess að þau telja að öryggi sínu sé ógnað. Þau eru brennd af fortíðinni í þessu sambandi og þau segja sem svo: Ef til átaka kemur þá getum við ekki staðið ein. Þess vegna leitum við til vina okkar og bandamanna og biðjum þá að hjálpa okkur. Það er nákvæmlega þannig sem það er. Það er ekki að NATO hafi sóst eftir því að senda lið þangað. Það hefur verið gert í mun minni mæli en þessi lönd, Eystrasaltslöndin, (Forseti hringir.) Pólland og fleiri lönd hafa beðið um í mörg ár.